Breytt gjaldskrá sundlaugar

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í desember sl. að gera breytingar á gjaldskrá sundlaugar en undanfarin ár hafa íbúar með skráð lögheimili í Vogum ekki greitt fyrir aðgang að sundlaug sveitarfélagsins. Ný gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar tók gildi í ársbyrjun og var birt á vef sveitarfélagsins í desember.

Við ákvörðun bæjarstjórnar var litið til úrskurðar Innviðaráðuneytisins sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum á liðnu ári að óheimilt væri samkvæmt lögum að útfæra gjaldskrár sundstaða þannig að í þeim fælist mismunun á grundvelli lögheimilisskráningar.

Eftir sem áður fá öll börn (að 18 ára aldri) og aldraðir frítt í sund í Vogum og er gjaldtöku fyrir aðgang annarra haldið í lágmarki. Þannig geta reglulegir notendur þjónustu sundlaugarinnar m.a. keypt árskort á talsvert betri kjörum en tíðkast í flestum öðrum sveitarfélögum hér á landi.

Gjaldskrá 2024