Áhugaverðir staðir

Í Sveitarfélaginu Vogum má finna ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem sundlaug, golfvöll, veitingastaði og gistingu. Auk þess eru í sveitarfélaginu fjöldamargir áhugaverðir staðir til að skoða og skemmtilegar gönguleiðir. Í nágrenni Voga eru nokkrir af skemmtilegustu ferðamannastöðum landsins, svo sem Bláa Lónið, Saltfisksetrið í Grindavík, Byggðasafnið á Garðskaga og Fræðasetrið í Sandgerði. Í Reykjanesbæ má finna mjög fjölbreytta starfsemi á sviði ferðaþjónustu, svo sem menningarmiðstöðina við Duus hús. Á vefsíðunni Reykjanes.is má finna gagnlegar upplýsingar um Reykjanesið.

Dæmi um áhugaverða staði í Sveitarfélaginu Vogum.

 • Keilir er 379 metra hátt móbergsfjall. Einkennisfjall Reykjanesskagans.  Tiltölulega auðvelt er að ganga á Keili og víðsýnt þegar þangað er komið.  Keilir er í um það bil 15 mínútna akstursfjarlægð frá Vogunum.
 • Vogastapi er sunnan Voga.  Hann er um 80 metrar yfir sjó og liggur milli Voga og Njarðvíkur.  Þar er mikið fuglalíf og fagurt útsýni. Frá Vogunum er um 30 mínútna ganga á Stapann og er Grímshóll hæsta bunga hans.  Þar er útsýnisskífa og í góðu skyggni er fjallasýn mikil.  Á Vogastapa er reimt og er fjöldi frásagna til af samskiptum Vogamanna og Stapadraugsins.
 • Á milli Voga og Innri Njarðvíkur liggur svokölluð Stapagata, sem er mjög skemmtileg leið.
 • Háibjalli er afar fallegur trjálundur í skjóli kletta, ofan Reykjanesbrautar í aðeins 20 mín göngufjarlægð frá Vogum. 
  Frá Háabjalla er útsýni yfir Snorrastaðatjarnir og þaðan er hægt að ganga eftir Hrafnagjá sem er gróðurmikil sprungugjá. Hrafnagjá er misgengi í heiðinni ofan Voga.  Gjáin dregur nafn sitt af hröfnunum sem gera sig gjarnan heimankomna þar.  Hrafnslaupar eru enn algengir í Hrafnagjá og má sjá gamla og nýja laupa á klettasillum.  Gjáin er gróskumikil og má þar meðal annars finna burkna, burnirót, fryggjargras auk algengra gras og lyngtegunda sem víða finnast í heiðinni
 • Skammt frá Háabjalla eru Snorrastaðatjarnir, Þær eru gróskumiklar og mikilvægur áningastaður farfugla vor og haust.  Oftast er talað um að tjarnirnar séu þrjár en þær sýnast þó fleiri í vætutíð. Snorrastaðatjarnir og Háibjalli eru á náttúruminjaskrá.
 • Fyrir þá sem kjósa lengri gönguferðir er upplagt að ganga Skógfellaveginn, vörðuð gönguleið til Grindavíkur. Þetta er afar falleg leið yfir fjölbreytt hraun og fjalllendi. Gangan tekur 4-6 klst. Upphaf gönguleiðarinnar er rétt neðan við Háabjalla, s.s. í göngufjarlægð frá Vogum. 
 • Kálfatjarnarkirkja var reist árið 1893 og er staðsett á miðri Vatnsleysuströnd.  Kirkjan er sannkölluð völundarsmíði og ein stærsta sveitakirkja á landinu. 
 • Golfklúbbur Vatnsleysustrandar er einn fjölsóttasti ferðamannastaður í Vogum og nágrenni og lætur nærri að heimsóknir á síðasta ári hafi verið um 7.000. 
  Staðarborg er hringlaga steinhleðsluvirki sem á árum áðum var notað sem fjárrétt, er staðsett á miðri heiðinni milli Kálfatjarnarkirkju og Reykjanesbrautar.  Í bjartviðri er útsýni mjög fallegt frá Staðarborg; mosavaxnar hraunbreiður á aðra hönd og fagurblár Faxaflóinn á hina, þar sem snæviþakinn Snæfellsjökullinn rís upp úr sjóndeildarhringnum u.þ.b. 100  km í burtu.
 • Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir , Trölladyngju 379m eða Grænudyngju 402m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.
Getum við bætt efni síðunnar?