Árið 1872 tók til starfa skóli í Sveitarfélaginu Vogum, sem þá hét reyndar Vatnsleysustrandarhreppur. Það var séra Stefán Thorarensen prestur á Kálfatjörn sem átti frumkvæðið að stofnun skólans. Afmælisdagur skólans er fyrsti september en þá er skólinn formlega stofnaður. Fyrsti skóladagur er svo 1. október sama ár.
Þó nafn sveitarfélagsins og nafn skólans hafi breyst er þetta þriðji elsti barnaskóli á Íslandi sem hefur starfað samfleytt og heitir nú Stóru-Vogaskóli og er starfræktur í þéttbýlinu í Sveitarfélaginu Vogum.
Haldið var upp á 150 ára afmæli skólahalds í sveitarfélaginu árið 2022.
Þorvaldur Örn Árnason hefur tekið saman þætti úr sögu skólans og telja þeir nú nær fimmtíu. Þættirnir voru birtir á heimasíðu sveitarfélagsins, heimasíðu Stóru-Vogaskóla og í Víkurfréttum jafnt og þétt allt árið 2022.