Vinnuskólinn hlýtur Grænfánann!

Líkt og flestum er orðið kunnugt um þá tók vinnuskólinn í Vogum þátt í Grænfánaverkefni Landverndar þetta árið með það að markmiði að geta flaggað Grænfánanum í lok sumars.

Nú getum við loksins staðfest það að vinnuskólanum hefur tekist ætlunarverk sitt og munum við stolt flagga Grænfánanum sem afhentur verður við hátíðlega athöfn á fjölskyldudögum!  Vinnuskólinn í Vogum er nú einn af fimm vinnuskólum á landinu sem unnið hafa sér þann heiður að fá að flagga Grænfánanum. Afhendingarathöfnin verður á laugardaginn 19. ágúst kl. 14:30 í Aragerði. Við hvetjum alla til að mæta og klappa hressilega fyrir flottu krökkunum okkar sem gerðu þetta mögulegt. 

Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem er veitt þeim skólum sem standa sig vel í umhverfismálum og vinna að sjálfbærni. Skólar sem hafa hlotið þessa viðurkenningu flagga fánanum við skólann sinn eða skarta skilti með grænfánamerkinu. Grænfánaskóla má finna í 68 löndum víða um heim og er verkefnið rekið af FEE, Foundation for Environmental Education. Á Íslandi hefur Landvernd haft umsjón með verkefninu frá upphafi.