Vinnuskólinn - Heimsókn frá Landvernd

Í gær var fyrsti dagur vinnuskólans þar sem allir árgangar voru mættir. Við hófum daginn upp í félagsmiðstöð þar sem við fengum heimsókn frá Sigurlaugu Arnardóttur sem kom til okkar fyrir hönd Landverndar. Sigurlaug byrjaði daginn á því að halda fyrirlestur um ýmis umhverfismál, þar á meðal hringrásarkerfið, sjálfbærni, loftlagsmál o.fl. Fyrirlesturinn var virkilega áhugaverður og komu þar fram margir áhugaverðir punktar. 

Eftir stutta kaffipásu og smá sprell í íþróttasalnum settumst við aftur niður og kynnti Sigurlaug þá fyrir okkur grænfánaverkefnið. Ef allt gengur að óskum þá verðum við einn af fimm Vinnuskólum á landinu sem geta státað sig af því að flagga Grænfánanum í lok sumars. Þetta verður krefjandi verkefni þar sem við þurfum markvisst að stíga þau sjö skref sem Landvernd setur fyrir. Við höfum fulla trú á því að krakkarnir geri þetta með stakri prýði og hafi vonandi gaman af í leiðinni. Við hlökkum mikið til að ýta þessu verkefni úr vör.

Eftir að hafa fengið kynningu um grænfánaverkefnið hélt Sigurlaug áleiðis með okkur niður í íþróttasal þar sem farið var í leiki með tengingu við þau umfjöllunarefni sem fjallað hafði verið um.