Vinnuskóli á grænni grein

Líkt og fram hefur komið þá tekur vinnuskólinn þátt í Grænfánaverkefni Landverndar þetta sumarið og er markmiðið að eftir sumarið getum við stolt fengið að flagga Grænfánanum. Verkefnið kallast "Vinnuskóli á grænni grein" og var eitt af fyrstu verkefnum vinnuskólakrakkanna að velja sér þema sem þau vildu vinna með í sumar. Þemun eru fyrirfram ákveðin af Landvernd, þá sem hluti af Grænfánaverkefninu, en það er krakkanna sjálfra að útfæra þemað. Verkefnið styðst fyrst og fremst við nemendalýðræði og skipuðu krakkarnir sjálf í nefnd sem bar ábyrgð á því að útfæra nánar verkefni tengd þemanum. 

Krakkarnir völdu sér þemað Lýðheilsa og kusu sér slagorðið "Láttu þér líða vel" fyrir sumarið. Grænfánaverkefnið er tekið í 7 skrefum og er einn hluti verkefnisins að upplýsa og virkja nærsamfélag vinnuskólans. Hluti af því hjá okkur var að vera dugleg að fjalla um verkefnið, deila því á samfélagsmiðla osfrv., annar hluti var að bera boðskapinn um bæinn og völdu krakkarnir að gera það í formi götulistar. Krakkarnir hafa unnið hörðum höndum að því síðustu daga að mála jákvæðan og hvetjandi boðskap á göngustíga bæjarins. Vonum við að bæjarbúar hafi eins gaman að þessu og við.