Vinnufundur félagasamtaka

Nú á dögunum var haldinn vinnufundur frístunda- og menningarnefndar með félagasamtökum í sveitarfélaginu. Hópurinn hittist í Álfagerði og þar var farið yfir tímalínu við framkvæmd og innleiðingu nýrrar íþrótta- og tómstundastefnu hér í Vogunum. Örlítill inngangur var um tilgang og markmið stefnunnar sem og heildrænni nálgun og meginmarkmiðum heilsueflandi samfélaga.

Unnið var í hópum að ýmsum vangaveltum er varðaði starfið sem nú er og á hvaða hátt má efla það og auðga. Rennt var yfir helstu niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar er varðar málaflokkinn og þó þar sé um margt góðar niðurstöður er sannarlega eitthvað sem má bæta, líkt og hreyfingu barna almennt.

Sannarlega eru tækifæri og mikilvægt að horfa heilstætt á framboð, eftirspurn og möguleika í okkar góða sveitarfélagi. Íþrótta- og tómstundastarf í Vogum hefur á undanförnum árum gengið um margt afar vel.

Samfélagið býr yfir íþróttahúsi og sundlaug, knattspyrnuvelli, líkamsrækt, göngu- og hjólastígum, stutt er í náttúruna, fjöru og móa og hér er lifandi félagsstarfi og þátttaka íbúa á öllum aldri. Samhliða því er mikilvægt að ræða hvernig við getum þróað framboðið enn frekar, bæði hvað varðar fjölbreytileika, fjármagn, aðstöðu og aðgengi fyrir alla íbúa.

Margar spurningar (og mörg svör!) komu við spurningum eins og: Hvernig náum við til barna sem ekki stunda neitt skipulagt starf í dag? og fullorðinna sem ekki hafa fundið sitt áhugamál? Hvað þarf til að nýir íbúar og innflytjendur finni sig velkomna og upplifi að íþrótta- og tómstundastarf sé líka fyrir þau?

Það skiptir einnig máli að börn og ungmenni fái raunverulegt rými til að hafa áhrif: Hvernig getum við tryggt að þeirra rödd heyrist og nýtist þegar við mótum framtíðina? Hverjir eru helstu möguleikarnir til að bæta aðstöðu, skipulag og daglegt starf og hvað þarf helst að byggja upp til að efla heilbrigða, innihaldsríka og skemmtilega tómstundamenningu?

Hvernig getum við laðað að fleiri sjálfboðaliða, þjálfara og leiðbeinendur, sem eru hjartað í öllu íþrótta- og félagsstarfi? Hvaða stærstu tækifæri sjáum við fram undan? Hvaða þrjú til fimm atriði skipta mestu máli ef við horfum fimm ár fram í tímann?

Með sameiginlegri sýn, opnu samtali og jákvæðni getum við byggt upp fjölbreytt og aðgengilegt íþrótta- og tómstundalíf sem hentar öllum íbúum Voga, frá yngstu börnum til elstu íbúa, og styrkt þannig heilsueflandi og barnvænt samfélag.

Hér er nokkrar myndir sem teknar voru á vinnufundinum sem haldinn var í Álfagerði: