Fjölskyldudögum lauk á sunnudag og viljum við nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem tóku þátt í að gera hátíðina enn á ný ógleymanlega. Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir ýmislegt sem vel er gert í sveitarfélaginu.
Viðurkenningar úr mennta, menningar og afreksmannasjóði
Viðurkenningu og styrk úr mennta-, menningar- og afreksmannasjóði sveitarfélagsins fyrir bestan árangur við útskrift úr grunnskóla hlutu þeir Denislav Nikolaev Chachev, Friðjón Ingi Davíðsson og Gunnar Axel Sigurðsson. Auk þess fá viðurkenningu og styrk úr sjóðnum, umsækjendurnir Jónatan Örn Sverrisson og Sara Líf Kristinsdóttir sem lokið hafa framhaldsskóla.
Umhverfisviðurkenningar
Umhverfisnefnd veitti Þorvaldi Erni Árnasyni umhverfisviðurkenningu fyrir "framtak sitt í þágu náttúrunnar" en hann hefur verið ötull talsmaður náttúru og umhverfis í sveitarfélaginu.
Þá hlaut Agnar Páll Agnarsson umhverfisviðurkenningu fyrir hönnun sína og vinnu við lóðir Lindarbrekku og Holts.
Agnar Páll Agnarsson og Þorvaldur Örn Árnason, handhafar umhverfisviðurkenninga með þeim Guðrúnu Kristínu Ragnarsdóttur og Ingu Sigrúnu Baldursdóttur í Umhverfisnefnd
Best skreyttu húsin og sigurvegari hverfaleika
Frístunda- og menningarnefnd veitti eigendum eftirfarandi húsa og íbúða viðurkenningu fyrir bestar skreytingar í tengslum við hverfaleika; Heiðardalur 1 í græna hverfinu, Aragerði 16 í rauða hverfinu, Grænaborg 14, íbúð 104 í gula hverfinu og Skyggnisholt 2 í bláa hverfinu. Best skreytta hverfið þetta árið var græna hverfið.
Græna hverfið var jafnframt siguvegari hverfaleikanna í ár.
Fulltrúar best skreyttu húsa/íbúða hverfa
Við óskum viðurkenninga- og verðlaunahöfum innilega til hamingju og erum þegar byrjuð að hlakka til fjölskyldudaga á næsta ári.