Verkefni í Vogum hlutu styrki Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja

Ánægjulegt er frá því að segja að þó nokkur verkefni hér í Vogum hlutu styrk á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja sem fram fór föstudaginn 21. nóvember. Tilgangur uppbyggingarsjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum. Mikil flóra er í mannlífinu í Vogum sem endurspeglast í veittum styrkjum og sendum við styrkþegum innilegar hamingjuóskir. Lýsingar á verkefnum eru hér að neðan.

Brúum kynslóðabilið. Umsækjandi: Félag eldri borgara í Vogum

Leikskólabörn frá Suðurvöllum í Vogum koma og vinna með eldri borgurum. Markmið er að tengja saman kynslóðir í smíðastofu Álfagerðis. Krakkarnir teikna á efnivið og eldri kynslóðin grófvinnur hugmyndir þeirra í vélum, síðan fínvinna krakkarnir „hlutinn“ sinn og mála.

Afmælisrit í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Umsækjandi: Kvenfélagið Fjóla

Markmið verkefnisins er að rita og gefa út afmælisrit í tilefni af 100 ára afmæli Kvenfélagsins Fjólu þar sem saga, starf og samfélagslegt framlag félagsins er dregið fram á heildstæðan og aðgengilegan hátt.

Endurgerð fræðslu- og upplýsingaskilta. Umsækjandi: Hilmar E Sveinbjörnsson

Markmið verkefnisins er að endurgera fræðslu- og upplýsingaskilti sem bæði hafa skemmst og látið á sjá. Markmið með verkefninu er ennfremur að miðla sögu og menningu svæðisins. Skiltunum er ætlað að vera lykill gesta að stöðunum sem þeir heimsækja með það að markmiði að dýpka söguvitund þeirra á svæðinu.

Samkomuhúsið Kirkjuhvoll. Umsækjandi: Minjafélag Vatnsleysustrandar.

Samkomuhúsið Kirkjuhvoll á Vatnsleysuströnd var byggt árið 1933. Bygging þess var samstarfsverkefni Ungmennafélags Þróttar og Kvenfélagsins Fjólu í Vatnsleysustrandarhreppi sem þurftu húsnæði fyrir starfsemi sína. Markmið Minjafélagsins er að halda áfram að gera Kirkjuhvol upp og færa í sem næst upprunalegu horfi. Húsið mun verða nýtt fyrir smærri samkomur og tilfallandi verkefni auk þess sem sögu hússins og félaganna sem það byggðu verður þar gerð skil.

Saunagus Reykjanes. Umsækjandi: Petra Ruth Rúnarsdóttir

Saunagus Reykjanes býður uppá nýjung í strandmenningu á Suðurnesjum sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu íbúa auk annarra gesta. Hugmyndin byggir á viðarkyntri saunu sem byggð er inn í 20 feta gámi. Þar getur fólk sótt handleidda saunutíma þar sem skiptast á lotur í sjó/kæling og saunu.

DroneTrails ferðaþjónustufyrirtæki. Umsækjandi: DroneTrails ehf.

DroneTrails mun halda áfram að þróa og efla einstaka ferðaupplyfun fyrir áhugafólk um dróna og ljósmyndun. Markmiðið er að byggja ofan á þann frábæra árangurs sem hefur náðst. Halda áfram að skipuleggja og fara í ferðir um landið. Þar á meðal á Suðurnesjum þegar tækifæri gefast – þar sem ferðamenn fá að upplifa og fanga Ísland úr lofti.

Auk ‏þess er sveitarfélagið þátttakandi í verkefnum sem snúa að bókmenntaarfinum og menningarlífi á svæðinu, sólmyrkvagleraugum og virkniþingi Suðurnesja.

Mörg spennandi verkefni eru í gangi á Suðurnesjum sem við hvetjum íbúa til að kynna sér

Hér má sjá alla sem hlutu styrki: Úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja 2026 - SSS

Styrkþegar og fulltrúar styrkþega í Vogum ásamt bæjarstjóra