Vel heppnuð ljósmynda- og gítarnámskeið

 

Í síðustu viku voru haldin hér í Vogum vikulangt námskeið fyrir krakka á aldrinum 12-16 þar sem boðið var upp á ljósmyndanámskeið annars vegar og hinsvegar gítar/tónlistarnámskeið. „krakkarnir stóðu sig með prýði og þau lærðu margt nýtt“, segir Bent Marinósson, kennari námskeiðanna.
„Á gítar- og tónlistarnámskeiðinu fórum við yfir grunnatriði í tónlist, svo sem rytma og mikilvægi taktsins sem og fyrstu gítargripin. Á ljósmyndanámskeiðinu unnum við mikið með myndbyggingu og hugmyndavinnu varðandi myndatökur, að vera skapandi og leita að skemmtilegum vinklum“.

Námskeiðin voru vel sótt og stóð sem fyrr segir yfir í viku. Nemendur fengu verkefni, sem ýmist voru unnin á staðnum eða heimafyrir. Bæði námskeiðin byggðu á blöndu af fræðslu og verklegu.
„Á ljósmyndanámskeiðinu fórum við yfir fræðilega hlutan í byrjun dags, svo fórum við út að taka myndir til að æfa okkur í þeim lögmálum sem við höfðum farið yfir fyrr um daginn, loks unnum við myndirnar og skelltum þeim upp á töflu og hópurinn fór yfir þetta saman. Frábært samstarf, lærdómsfullt og uppbyggjandi fyrir alla“, segir Bent að lokum og segist spenntur taka þátt í fleiri slíkum verkefnum hér í Vogum.