Úr dagbók bæjarstjóra

Það er óhætt að segja að krakkarnir sem Stöð 2 tók tali hafi slegið í gegn enda voru þau frábær
Það er óhætt að segja að krakkarnir sem Stöð 2 tók tali hafi slegið í gegn enda voru þau frábær

Fyrstu dagarnir og fyrsta heila vikan í starfi er að baki hjá nýjum bæjarstjóra og hún var fjölbreytt og lærdómsrík.

Þrátt fyrir að ég hafi vissulega verið með annan fótinn á bæjarskrifstofunni síðustu vikur og í góðu sambandi við bæði starfsfólk og kjörna fulltrúa kom ég ekki formlega til starfa fyrr en undir lok síðustu viku, þ.e. 1. september sl. Nýtt samstarfsfólk á bæjarskrifstofunni tók vel á móti mér og fór fyrsti vinnudagurinn að mestu í að leysa ýmis praktísk mál sem fylgja því að byrja í nýju starfi, tengja mig við og tryggja aðgangsheimildir að öllum upplýsingakerfum sveitarfélagsins og fá allt til að virka eins og það á að gera. Ég hef tamið mér að vera óhræddur að spyrja spurninga og nýtt samstarfsfólk mitt hefur því sannarlega þurft að sitja fyrir svörum síðustu daga um allt á milli himins og jarðar, t.d. hversu margar skeiðar af kaffi er ráðlegt að nota við uppáhellinguna á kaffistofunni. Sem betur fer reyndist almenn samstaða ríkja um að „þrjár sléttfullar“ væru hið gullna viðmið á bæjarskrifstofunni í Vogum.

Á föstudaginn byrjaði ég daginn á því að heimsækja þjónustumiðstöðina í Iðndal, hitta samstarfsfólkið þar og heyra af þeirra fjölbreyttu verkefnum sem þau sinna, m.a. umsjón fasteigna, snjómokstur og akstursþjónustu. Síðan átti ég fund með fulltrúum annarra sveitarfélaga um breytt fyrirkomulag barnaverndarmála sem tekur gildi um næstu áramót og eru sveitarfélögin í landinu á fullu að undirbúa sig undir þær breytingar. Síðar um daginn heimsótti ég svo forsvarsfólk Þróttar í íþróttamiðstöðinni og fékk kynningu á því blómlega starfi sem þar fer fram og söguna að baki þeirri skemmtilegu hugmynd að blása til Ástarmánaðar í Vogum.

Við Guðmundur Stefán íþrótta- og tómstundafulltrúi heimsóttum forsvarsfólk Þróttar, þau Martein framkvæmdastjóra og Petru formann félagsins.

Vikan 5-9. september hófst á stjórnarfundi í Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðunesja. Þetta var fyrsti fundur nýrrar stjórnar að afloknum kosningum en í stjórninni sitja fulltrúar allra sveitarfélaganna á svæðinu auk fulltrúa Kadeco og Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi. Á fundinum voru meðal annars til kynningar og umfjöllunar niðurstöður skýrslu sem Reykjavík Economics unnu fyrir Hekluna um hagræn áhrif af Suðurnesjalínu 2. Niðurstöðurnar komu sennilega engum á óvart, þ.e. að til lengri tíma sé bætt flutningskerfi raforku ein af forsendum frekari uppbyggingar á Suðurnesjum. Um þetta hefur raunar aldrei verið deilt og allir hagaðilar, þar með talið bæjaryfirvöld í Sveitarfélaginu Vogum, alltaf lagt áherslu á mikilvægi þess að fundin verði ásættanleg lausn á útfærslu verkefnisins svo hægt verði að ráðast í framkvæmd þess. Eins og staðan er í dag virðist verkefnið hinsvegar helst stranda á áherslum sem Alþingi mótaði með samþykkt þingsályktunar árið 2015 sem fulltrúar Landsnets telja að útiloki möguleika fyrirtækisins til að skoða aðra kosti en lagningu loftlínu samhliða Suðurnesjalínu 1. Í ljósi sögunnar og þeirrar þekkingar og reynslu sem hefur orðið til á síðustu árum auk gjörbreyttra aðstæðna sem hafa skapast í kjölfar jarðhræringa á svæðinu, er eðlilegt að spyrja hvað tefji endurskoðun Alþingis á fyrrnefndri þingsályktun? Með því getur þingið mögulega hoggið á þann hnút sem málið hefur verið í undanfarin ár og gert aðilum fært að útfæra verkefnið þannig að um það geti náðst breið sátt og framkvæmdir hafist.

Á mánudag sótti ég einnig fund um viðbragðsáætlanir á Reykjanesskaga vegna eldsumbrota og aðkomu Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra að því verkefni. Á fundinum voru auk fulltrúa sveitarfélaganna aðilar frá lögreglu og slökkviliði en tilgangur fundarins var að ræða aukið og bætt samstarf aðila á þessu sviði og leiðir til að efla enn frekar starf almannavarna á Reykjanesi.

Mánudeginum lauk síðan með heimsókn tveggja alþingismanna þegar þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson komu í heimsókn í Voga og áttu óformlegan fund með bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar. Áttum við mjög gott samtal við þessa ágætu fulltrúa þingsins, m.a. um þá uppbygginu sem á sér stað í sveitarfélaginu og auðvitað líka um málefni Suðurnesjalínu 2 og mikilvægi þess að bæjarbúar fái notið viðunandi þjónustu heilsugæslu í heimabyggð. Heimsókninni lauk síðan með stuttri skoðunarferð um bæinn.

Á þriðjudag heimsótti ég síðan Stóru-Vogaskóla og leikskólann Suðurvelli og átti óformlega en upplýsandi fundi með stjórnendum beggja skóla, hitti starfsfólk og nemendur og kynnti mér aðbúnað á báðum stöðum. Þetta voru í senn upplýsandi og ánægjulegar heimsóknir og gaman að sjá hversu mikill kraftur og framsýni einkennir starfsemi skólanna í Vogum. Krakkarnir tóku líka vel á móti nýjum bæjarstjóra og voru óhrædd að spyrja mig spurninga.

Á þriðjudaginn fengum við líka heimsókn frá Stöð 2 en á miðvikudaginn var umfjöllun í sjónvarpinu um Sveitarfélagið Voga og svokallaðan Ástarmánuð sem Ungmennafélagið Þróttur stendur fyrir og hefur vakið verðskuldaða athygli. Innslagið var sýnt í þættinum Íslandi í dag á miðvikudagskvöldið og er óhætt að segja að krakkarnir sem Stöð 2 tók tali hafi slegið í gegn enda voru þau frábær. Auk þess er varla hægt að hugsa sér betri málsvara um málefni barna en einmitt þau sjálf og í því hlutverki stóðu þau sig að sjálfsögðu með prýði.

Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri Þróttar í viðtali

Á miðvikudag heimsótti ég Félag eldri borgara sem var með sína vikulegu félagsvist í Álfagerði og þar fékk ég dýrmætt tækifæri til að kynnast starfsemi félagsins og félagsfólki. Í kaffinu að aflokinni spilamennsku var vetrardagskrá félagsins kynnt en félagið stendur fyrir ýmsum spennandi uppákomum í vetur, s.s. sviðaveislu, jólakvöldverði og ferðalögum innanlands.

Stærstur hluti fimmtudagsins fór í heimsókn á hafta- og öryggissvæði Keflavíkurflugvallar. Heimsóknin var skipulögð af Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi í samstarfi við Utanríkisráðuneytið, Varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar og Isavia. Með í för voru fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu ásamt þingmönnum kjördæmisins og ýmsum hagsmunaaðilum sem tengjast starfsemi flugvallarins. Utanríkisráðherra var með í ferðinni og flutti þar ávarp auk þess sem stjórnendur Isavia og Landhelgisgæslunnar kynntu sína fjölbreyttu starfsemi. Þetta var kærkomið tækifæri til að fá innsýn í þá viðamiklu starfsemi og uppbyggingu sem fram fer á þessu svæði og er meiri en sennilega flestir gera sér grein fyrir.

Á föstudag hófst dagurinn á stjórnarfundi í Reykjanes Geopark með fjöbreyttri dagskrá, þar sem auk annarra mála var umfjöllun um fyrirhugaða ytri úttekt á jarðvangnum og rekstri og viðhaldi ferðamannastaða á svæðinu. Á föstudaginn átti ég líka fund með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og kynnti mér starfsemi stofnunarinnar og þær framkvæmdir og úrbætur sem nú standa yfir á hluta af húsnæði hennar. Tilgangur fundar okkar var ekki síst að ræða málefni heilsugæslu í Sveitarfélaginu Vogum en að því verkefni ætlum við að vinna markvisst á næstu vikum og mánuðum með það að markmiði að tryggja íbúum sveitarfélagsins betri þjónustu í heimabyggð.

Í þeirri viku sem nú er að hefjast er margt á dagskránni, m.a. fundur í bæjarráði og samráðs- og upplýsingafundur með fulltrúum Landsnets. Þá mun Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum halda aðalfund sinn á laugardaginn kemur og í þetta sinn verður fundurinn haldinn í Tjarnarsal Stóru-Vogaskóla og fjöldi gesta heimsækja okkur af því tilefni. Á laugardaginn er líka síðasti leikur Þróttar í Lengjudeildinni þegar félagið tekur á móti Kórdrengjunum og hefst leikurinn klukkan 14:00. Ég hvet að sjálfsögðu alla Þróttara og aðra Vogabúa til að fjölmenna á völlinn og gera þennan síðasta deildarleik sumarins og jafnframt kveðjuleik félagsins í 1. deild (í bili) sem eftirminnilegastan.