Hluti ungmennaráðs Voga ásamt starfsfólki þess sótti ráðstefnu ungmennaráða sveitarfélaga síðastliðinn föstudag á Hilton Nordica í Reykjavík.
Þar voru saman komin ungmenni alls staðar af landinu og mikið fjör. Dagskráin var áhugaverð og fræðandi þar sem ungmenni fengu innsýn í hlutverk og umfang sveitarfélaga ásamt fjármögnun verkefna og síðast en ekki síst mikilvægi hlutverks ungmennaráða.
Ungmennaráð Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Hrunamannahrepps kynntu einstaklega áhugaverð verkefni sem þau hafa haldið utan um og komið að og þá var kynning á Barnvænum sveitarfélögum en Vogar eru einmitt að skerpa á vinnulagi þar um.
Hópurinn dreifði sér svo á vinnusmiðjur og þar var enn frekara tækifæri til að læra af öðrum og kynnast ungmennum í öðrum ráðum auk þess sem Rannís var með erindi um styrki og tækifæri fyrir ungmennaráð.
Auðvitað var séð til þess að öll fengju nóg að borða og vakti ísbarinn mikla lukku!
Að sjálfsögðu var myndakassi og þaðan kemur myndin góða. Ungmennaráð kemur vel nestað af frábærri ráðstefnu og ætlar sér stóra hluti á komandi ári.
Á myndinni eru: Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, Sigurrós Eva Sverrisdóttir, Emelía Ósk Ragnarsdóttir, Kamilla Huld Jónsdóttir og Jökull Þór Kjartansson

Fróðleg og áhugaverð dagskrá á ráðstefnunni