Umhverfisviðurkenning Sveitarfélagsins Voga 2022

Perlur Sveitarfélagsins Voga leynast víða. Ein þeirra er í Hvassahrauni 27. Þar hafa hjónin Arndís Helga Einarsdóttir handverkskona og Bjarni Róbert Kristjánsson múrarameistari byggt sér fallegt heimili í grónu hrauninu við sjóinn sem fellur listavel inn í umhverfið. Eljan, alúðin og handtök síðustu 20 ára eru óteljandi þar sem ræktunarskilyrði eru afar erfið og plöntur oftar en ekki orðið vind, seltu, þurrki eða sauðfé að bráð. Þau hjónin hafa einnig haldið í heiðri minjum um horfna tíma, endurgert gamlar hleðslur og varðveitt ummerki um útgerð og fiskverkun á svæðinu.

 

Það er sannarlega gaman að koma á þennan fallega stað þar sem útsýnið út á sjó og Snæfellsjökul er meðal listaverka náttúrunnar. Þau hjónin njóta þess að segja frá byggingu heimilisins, fuglalífinu og öllu því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur á svæðinu og eru afar stollt af.