Rampur númer eittþúsund og eitthundrað var vígður í Vogum

Það var líf og fjör við félags- og íþróttamiðstöðina í dag þar sem rampur númer eittþúsund og eitthundrað í verkefninu Römpum upp Ísland var vígður.

Eggert Bjarnason íbúí í Vogum klippti á borðann og Þorvaldur Örn Árnason tók lagið í tilefni dagins.


Þessi atburður markar tímamót í átakinu „Römpum upp Ísland”, sem stefn ir að því að byggja 1.500 rampa í þágu hreyfihamlaða fyrir 11. mars 2025. Átakið Römpum upp Ísland hefur nú reist 1.100 rampa og var sá fyrsti tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa þúsund rampa, en var sú ákvörðun svo tekin að ganga einu skrefi lengra og reisa eitt þúsund og fimmhundruð rampa. Íbúar Voga lýstu yfir mikilli ánægju með átakið og metnaðinum á bak við það!

Haft er eftir Gunnar Axel Axelssyni bæjarstjóra í Vogum að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þessu frábæra og metnaðarfulla verkefni sem hefur orðið til þess að aðgengismál hafa loksins komist rækilega á kortið í okkar samfélagi.

"Við í Vogum viljum að sjálfsögðu tryggja jafnt aðgengi allra að okkar stofnunum og þeirri þjónustu sem íbúum stendur til boða og tökum fagnandi þeirri hvatningu og stuðningi sem felst í verkefninu Römpum upp Ísland. Vonandi munum við einhvern tíma upplifa þann dag þar sem aðgengi hreyfihamlaðra verður svo sjálfsagður og eðlilegur hlutur að það þurfi ekki átak til og ég held að Römpum upp Ísland hafi tekist að fleyta okkur miklu hraðar og nær því markmiði. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka forsvarsfólki Römpum upp Ísland og öllum sem hafa lagt þvi lið fyrir að hafa vakið samfélagið okkar til vitundar um mikilvægi þess að óþarfa hindrunum sé rutt úr vegi og við hugum alltaf að aðgengi fyrir alla þegar við vinnum að hönnum og framkvæmd samfélagslegra innviða."  sagði Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í tilefni af vígslu rampsins sem er einn af sjö römpum sem stefnt er að því að koma upp í tengslum við verkefnið í Vogum.

 

Að verkefninu Römpum upp Ísland koma margir styrktaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsborg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og Innviðaráðuneytið. Að auki hefur fjölmargt stuðningsfólk lagt hönd á verkið.