Suðurnesjalína 2, umsókn um framkvæmdaleyfi, ný gögn

Nærmynd af sprungum og jarðfræði í nágrenni fyrirhugaðrar línulagnar
Nærmynd af sprungum og jarðfræði í nágrenni fyrirhugaðrar línulagnar

Með bréfi dags. 30. ágúst 2022, gerði Landsnet hf. athugasemd við afgreiðslu skipulagsnefndar sveitarfélagsins frá 29. ágúst 2022 á umsókn félagsins um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2. Óskaði félagið eftir því að bæjarstjórn staðfesti ekki afgreiðslu nefndarinnar og tæki málið til frekari athugunar. Þá var óskað eftir fundi með nýkjörinni sveitarstjórn um málið. Eins og kunnugt er varð sveitarstjórn við erindi Landsnets hf. og frestaði afgreiðslu málsins og fundaði með félaginu. Á fundi aðila kom meðal annars fram að félagið teldi ekki hægt að mæla með því að línan yrði lögð í jörð meðfram Reykjanesbraut af öryggisástæðum vegna hættu á skemmdum í jarðskjálftum.

Landsnet lagði fram ný gögn í málinu þann 10. október 2022. Annars vegar var um að ræða minnisblað um mekanískt þol jarðstrengja dags. 03.10.2022 og hins vegar minnisblað EFLU dags 02.07.2022 um Mat á náttúruvá, rýni á skýrslu Jarðvísindastofnunar HÍ. Sveitarfélagið ákvað að fá mat óháðra aðila á framangreindum gögnum. Annars vegar er um að ræða greinargerð Dr. Ástu Rutar Hjartardóttur, jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um bergsprungur í nágrenni Voga, dags. 12. desember 2022. Hins vegar er um að ræða minnisblað Lotu verkfræðistofu, Rýni á minnisblaði um Mekanískt þol Jarðstrengja, dags. 02.12.2022.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði Lotu verkfræðistofu eru framlagðar upplýsingar Landsnets um meganískt þol umræddra tegunda jarðstrengja staðfestar.

Í greinargerð Dr. Ástu Rutar Hjartardóttur jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um bergsprungur í nágrenni Voga er fjallað um sprunguhreyfingar í nágrenni við sveitarfélagið og meðfram þeim valkostum sem hafa verið til skoðunar vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Í niðurstöðum kemur fram að hreyfingar á sprungum hjá áætluðum jarðstreng í Þráinsskjaldarhrauni séu litlar. Mælir höfundur með því að línan sé lögð norðarlega á svæðinu frekar en sunnarlega, enda minnki það bæði líkur á að hraun renni yfir lagnaleiðina og á sprunguhreyfingum undir henni. Þá kemur fram að við norðurhluta Rauðavatns liggi nú þegar jarðstrengur, á svæði sem er nokkuð keimlíkt svæðinu þar sem umræddur jarðstrengur er teiknaður við Reykjanesbraut. Því sé mikilvægt að huga að þeim jarðstreng ef talið er að ekki sé skynsamlegt að leggja jarðstreng við Voga vegna sprunguhreyfinga.

Eru þessar niðurstöður í samræmi m.a. við álit Skipulagsstofnunar sem í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 benti á mögulegan ávinning af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1, með tilliti til náttúruvár.

Þess ber að geta að í skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Náttúru- og eldgosavá í Sveitarfélaginu Vogum, Mat á eldgosavá með tilliti til jarðhræringa á Reykjanesi 2021, sem unnin var að beiðni sveitarfélagsins og kom út í apríl 2022, er bent á að við allt skipulag og hönnun innviða og mat á vörnum sé mikilvægt að taka tillit til þess að árið 2021 hófst eldgos í Fagradalsfjalli sem ætla megi að marki upphaf nýrrar eldsumbrotahrinu á Reykjanesi sem gæti staðið yfir í nokkrar aldir. Í niðurstöðum Jarðvísindastofnunar kemur jafnframt fram að Suðurnesja lína 1 liggi eftir þéttum sprungusveim og sé því á miklu áhættusvæði. Orðrétt segir í niðurstöðum um staðsetningu Suðurnesjalínu:

"Suðurnesja lína 1 er staðsett á mjög erfiðu svæði innan sigdals Eldvarpa-Svartsengis kerfisins. Komi til eldsumbrota er næsta víst að erfitt verður að verja línuna sökum staðsetningar hennar og afhendingar öryggi mun skerðast. Ný lína um sama svæði mun hljóta sömu örlög og Suðurnesja lína 1. Sú staðreynd að ný eldsumbrotahrina er hafin á Reykjanesi kallar á endurskoðun fyrri ætlana um staðsetningar á mikilvægum innviðum eins og Suðurnesjalínu 2"

Umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnsjalínu 2 er enn til efnislegrar meðferðar hjá Sveitarfélaginu Vogum. Hefur Landsneti verið gefinn kostur tjá sig um hin nýju gögn og niðurstöður þeirra. Þá hefur sveitarfélagið óskað eftir áliti Landsnets hf. á því hvort niðurstöður Dr. Ástu Rutar Hjartardóttur breyti einhverju um mat félagsins á öryggi jarðstrengs m.t.t. þess sem fram kemur í greinargerð hennar samanborið við loftlínu sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir.

 

Gögn:

Greinargerð um bergsprungur í nágrenni Voga, desember 2022

Rýni á minnisblaði um Mekanískt þol Jarðstrengja, desember 2022

Náttúru- og eldgosavá í Sveitarfélaginu Vogum, Mat á eldgosavá með tilliti til jarðhræringa á Reykjanesi, apríl 2022

Mekanískt þol jarðstrengja, minnisblað Landsnets dags, október 2022

Minnisblað EFLU - Mat á náttúruvá, rýni á skýrslu Jarðvísindastofnunar HÍ, júlí 2020