Stefán Ingi Guðjónsson íþróttamaður Sveitarfélagsins Voga 2023

Íþróttamaður ársins 2023

Um helgina var útnefndur íþróttamaður ársins í Vogum. Í þetta sinn var rafíþróttamaðurinn Stefán Ingi Guðjónsson fyrir valinu. Þetta er í fyrsta sinn sem rafíþróttamaður hlýtur þennan titil í Vogunum og er þetta líklega í fyrsta sinn sem íþróttamaður úr þessari grein hlýtur titilinn íþróttamaður ársins á landinu öllu.

Stefán er uppalinn í Vogum og hóf ungur að spila og keppa í rafíþróttum. Þá hefur hann lengst af spilað með liði Dusty í Counter strike eða CS eins og leikurinn er gjarnan kallaður.
Rafíþróttir vísa til skipulagðra keppni í tölvuleikjum á faglegum vettvangi. Það felur í sér að einstaklingar eða lið keppa á móti hvort öðru í ákveðnum leik, í skipulögðum deildum, mótum eða viðburðum.

Deildarmeistari með Dusty
Árið 2020 stofnaði Stöð 2 rafíþróttarásina Stöð 2 eSport þar sem meðal annars er sýnt frá Ljósleiðaradeildinni í CS í beinni útsendingu á þriðjudögum og fimmtudögum.

Stefán hefur lengi haft það orðspor að vera einn fremsti CS spilari Íslands en til þess að njóta velgengni í CS þurfa leikmenn að hafa góða samhæfingu hreyfingar og skynjunar, geta unnið vel í teymi, haft góða aðlögunarhæfni og eins og í öðrum íþróttum þarf að eyða miklum tíma í æfingar og greiningu.
Stefán hefur meðal annars orðið deildarmeistari með Dusty árin 2020, 2021 og 2023. En lið hans, Dusty situr nú einnig á toppi deildarinnar þegar nokkrar umferðir eru eftir af henni.

Komst í forkeppni BLAST (Evrópukeppnin í íþróttinni)
Eins og áður hefur komið fram varð hann ásamt liði sínu ljósleiðaradeildarmeistari árið 2023.
Ásamt því unnu þeir sér inn rétt til að keppa fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi sem er í raun forkeppni Norðurlandanna fyrir BLAST mótaröðina (sem mætti líkja við Evrópukeppni í rafíþróttum) en þar spiluðu þeir meðal annars á móti stórliði Mouz sem er mögulega einn stærsti leikur sem að íslenskt félagslið í CS á Íslandi hefur spilað.

Að lokum komust þeir í úrslitaleik Evrópudeildar ESEA open þar sem hundruðir liða keppti kappi. ESEA er eitt stærsta opna mótafyrirkomulag í heiminum fyrir CS en með árangri sínum komust þeir í ESEA Main flokkinn (flokkanir raðast eftir erfiðleika: Open→intermediate→Main→Advanced→ESL).

Guðmann R. Lúðvíksson, formaður Frístunda- og menningarnefndar ásamt Stefáni Inga Guðjónssyni, íþróttamanni Sveitarfélagsins Voga 2023

Guðmann Rúnar Lúðvíksson, formaður Frístunda- og menningarnefndar ásamt Stefáni Inga Guðjónssyni, Íþróttamanni ársins 2023 í Sveitarfélaginu Vogum