Skóflustunga tekin að nýju hverfi í Vogum

Grænabyggð ehf. er nú að fara hefja framkvæmdir við nýtt íbúðarhverfi í landi Grænuborgar í Vogunum. Fyrsta skóflustungan var tekin í dag, föstudaginn 19. júní kl. 11.30, vegna gatna- og lagnagerðar fyrir áfanga 1 og 2.

Grænabyggð mun rísa í landi Grænuborgar í Vogum. Um er að ræða frábærlega staðsett hverfi sem mun byggjast á næstu árum í fallegu, fjölskylduvænu og rólegu umhverfi við sjávarsíðuna. Hverfið er tengt núverandi byggð og því er stutt í alla helstu þjónustu. Gert er ráð fyrir að Grænabyggð verði um 2000 manna hverfi og er heildarfjöldi íbúða sem áformað er að reisa á landinu um 800 á 10 ára tímabili. Um er að ræða blandaða byggð, með aðaláherslu á lítil sérbýli. Allir innviðir eru þegar til staðar og ráða þeir vel við fyrstu stig uppbyggingarinnar. Leik- og grunnskóli eru í næsta nágrenni og er áformað að reisa bæði nýjan leik – og grunnskóla í hverfinu á næstu árum samhliða stækkun hverfisins.

Uppbygging svæðisins er til 10 ára samkvæmt samkomulagi Grænubyggðar ehf. við Sveitarfélagið Voga. Með því að dreifa byggingartíma yfir 10 ár, er tryggt að uppbygging og stækkun gerist í hægum og öruggum skrefum og að nauðsynleg uppbygging innviða geti átt sér stað samhliða. Verkefnið er unnið í góðu samstarfi og samráði við Sveitarfélagið Voga með það að markmiði að byggja fjölskylduvænt hverfi á einstökum stað.

Heimasíða Grænubyggðar er www.graenabyggd.is þarmá finna ýmsar upplýsingar um verkefnið. Inn á heimasíðunni má einnig finna neðangreint kort sem og myndband af því hvernig áfangi 1 og 2 munu líta út en nú er verið að hefja framkvæmdir á þeim áföngum. Myndbandið má einnig finna hér (https://www.youtube.com/watch?v=BOekR6MMKGg ).