Samstarf um Heilsueflandi samfélag á Suðurnesjum

                     

Samstarf um Heilsueflandi samfélag á Suðurnesjum

 

Í dag miðvikudaginn 14. ágúst munu bæjarstjórar Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkurbæjar og Voga ásamt forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og landlækni undirrita viljayfirlýsingu um að starfa saman að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) á Suðurnesjum. Athöfnin fer fram í húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skólavegi 6 kl. 13.  

Mikil fólksfjölgun hefur verið á Suðurnesjum undanfarin ár. Svæðið stendur vel hvað varðar ýmsa þætti sem hafa áhrif á vellíðan íbúa en samkvæmt m.a. Lýðheilsuvísum 2019  eru sóknarfæri til að gera betur.  Í samræmi við meginmarkmið HSAM er tilgangur samstarfsins að greina með markvissum hætti stöðuna og sameinast um að leita lausna sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa á Suðurnesjum. Samstarfið verður útfært frekar í framhaldinu en það mun m.a. nýtast við undirbúning Sóknaráætlunar Suðurnesja 2020-24.