Samstarf um forvarnarverkefnið Ábyrg saman
Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa gert með sér samstarfssamning vegna forvarnarverkefnisins Ábyrg saman.
Með verkefninu er unnið samkvæmt heimsmarkmiði 3; heilsa og vellíðan, þar sem lögð er áhersla á að efla forvarnir og beita snemmtækri nálgun vegna áhættuhegðunar hjá börnum. Verklag Ábyrg saman felst í því að barnavernd býður foreldrum og börnum upp á ábyrgt samtal með forvarnarfulltrúa frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum í þeim málum sem barnavernd ákveður að hefja ekki könnun á. Markmiðið er að gera foreldrum og barni grein fyrir barnaverndartilkynningu frá lögreglu, veita foreldrum og barni tækifæri til að eiga samtal um tilkynninguna, veita fræðslu og upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða og draga úr áhættuhegðun hjá barni.
Verkefnið hófst í Reykjanesbæ árið 2019 og hefur gagnsemi þess verið ótvíræð. Það er von okkar hér á fjölskyldusviði Voga að þetta auki við stuðning til fjölskyldna og efli farsæld barna.