Safnahelgi á Suðurnesjum

Dagskrá Safnahelgar í ár var að vanda fjölbreytt og áhugaverð og of langt að telja upp öll þau atriði sem fram fóru. 

Undanfarin ár hefur verið haldin opnunarhátíð, eins konar formleg og táknræn athöfn til að hefja Safnahelgina og að þessu sinni fór hún fram í sveitarfélaginu okkar. Nánar tiltekið í gömlu hlöðunni Skjaldbreið sem stendur á Kálfatjörn og Sögu- og minjafélag Vatnsleysustrandar hefur endurgert með miklum glæsibrag. Þar var boðið upp á ávörp, tónlistaratriði og léttar veitingar og gestir gátu þar næst skoðað bæði hlöðuna og einnig gamla skólann í Norðurkoti sem stendur nú á Kálfatjörn, einnig glæsilega endurgerður. 

Á laugardeginum var svo boðið upp á upplestur og kynningu á bókum. Sá viðburður er vanalega á bókasafninu en að þessu sinni var gert ráð fyrir fleiri gestum en vanalega og þótti ekki annað ráðlegt en að færa hann í Tjarnarsal. Kom enda í ljós að fjöldi gesta var slíkur að verulega þröngt hefði orðið um fólk á bókasafninu.  Nemendur í Stóru-Vogaskóla lásu upp og nemandi í tónlistarskólanum lég á píanó. Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur kynnti svo bók sína "Hvenær kemur sá stóri" sem hlaut nýverið bókmenntaverðlaun Íslands í flokki fræðibókmennta. 

 

Að því loknu, og einnig á sunnudeginum, var svo boðið upp á kynningu af hluta þess myndefnis sem til er úr Sveitarfélaginu Vogum. Má þar nefna Perlus Suðurnesja eftir Ellert Grétarsson, myndefni sem Rafn Sigurbjörnsson hefur gert, myndefni frá Vogar TV og Stóru-Vogaskóla og myndefni úr safni RÚV. Þá voru sýndar stuttmyndir sem nemendur Stóru-Vogaskóla hafa búið til í vetur. 

Fyrir áhugasama má bena á að á Youtube má finna talsvert mikið af efni úr sveitarfélaginu, mun meira en það sem hægt var að gera skil um helgina og bent er á að leita að þeim aðilum sem áður hafa verið taldir upp, einnig Sesselíu Guðmundsdóttur en á rás hennar er nokkuð af eldra myndefni.