Pistill bæjarstjóra.

Samfélagsmein – tökum okkur á!
Í pistli mínum þann 1. mars s.l. sagði ég frá uppsetningu hraðaviðvörunarskilta í Vogum. Skiltin segja ökumönnum til um á hvaða hraða er ekið, og séu ökumenn innan löglegs hámarkshraða skiptast á að birtast vingjarnlegur broskarl og hraðinn sem viðkomandi ekur á, í fagurgrænum lit. Sé hins vegar ekið umfram leyfilegan hámarkshraða verður broskarlinn að fýlukarli, rauðum á lit.
Það sem ekki kom hins vegar fram í fréttinni var að tækið er með þeim ágætum, að það safnar saman tölfræði um hraða ökutækjanna sem fram hjá þeim aka. Nú höfum við tekið út tölfræðina fyrir fyrstu tvær vikurnar frá því þau voru sett upp. Niðurstöðurnar eru ekki góðar og okkur ökumönnum sem aka um Vogana um til háborinnar skammar.
Skoðum tölfræðina frá Stapaveginum. Munum að Stapavegurinn er inni í bænum, og það er 30 km hámarkshraði á klukkustund. Samkvæmt greiningunni var meðalhraði allra ökutækja sem um götuna fóru á tímabilinu 1. - 13. mars 53 km/klst. Sá sem hraðast ók mældist á 93 km hraða á klst. Þetta er meira en þrefaldur hámarkshraði, og flokkast væntanlega undir ofsaakstur. Slíkur akstur varðar ökuleyfissviptingu.
HÁMARKSHRAÐINN ER 30 KM/KLST - ÞETTA ER INNI Í MIÐJUM BÆ!!!!
Hvers konar framkoma er þetta eiginlega? Hvað á það að þýða að nánast allir sem aka fram hjá þessu skilti virða ekki hámarkshraðann? Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað hitt hraðaviðvörunarskiltið segir okkur
- þaðeru verri tölur. Það sjáum við hraða sem mælist í þriggja stafa tölum. Þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.
Berum við enga virðingu lengur fyrir leikreglunum í samfélaginu? Gefum við einfaldlega skít í öryggi gangandi vegfarenda – sérstaklega barnanna okkar? Er hámarkshraðinn einungis til þess að skreyta sig með á
tyllidögum? Það er fjöldinn allur af skólabörnum sem fer yfir þessa götu á hverjum degi á leið sinni til og frá skóla - samkvæmt þessu eru þau í bráðri hættu. Sem betur fer hafa ekki nein slys orðið á gangandi vegfarendum hjá okkur – en samkvæmt þessum mælingum er hættan til staðar.
Góðir hálsar! Þetta er grafalvarlegt mál, sem við sem samfélag eigum ekki að líða - og alls ekki láta viðgangast. Tökum höndum saman, tökum okkur á og sýnum ábyrga hegðun í umferðinni. Það að aka umfram leyfilegan hámarkshraða flýtir för okkar einungis um örfáar sekúndur, sem á ögurstundu geta reynst örlagaríkar og dýrkeyptar. Líf og heilsa barnanna okkar og annarra vegfarenda eru í húfi. Látum ekki spyrjast á okkur að við séum umferðardólgar - tökum okkur tak og sameinumst um að laga þetta. Strax. Svona gerum við ekki.
Og hana nú.
Að lokum
Annað var ekki að þessu sinni. Góðar stundir.

Ábyrgðarmaður: Ásgeir Eiríksson asgeir@vogar.is 15.3.2019 7.árg.8.tbl. Innihald þessa pistils er ætlað að þjóna því hlutverki að miðla fréttum af því sem efst er á baugi hverju sinni á vettvangi sveitarfélagsins sem og að halda til haga gagnlegum upplýsingum um starfsemina á vettvangi sveitarfélagsins.