Pistill bæjarstjóra.

Framkvæmdir 2019
Þessa dagana og vikurnar er unnið markvisst að undirbúningi framkvæmda ársins. Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir árið eru ýmsar framkvæmdir á döfinni. Framkvæmdir við byggingu nýrrar þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins eru þegar hafnar, og er jarðvinnan vel á veg komin. Nú er unnið að gerð útboðsgagna fyrir þau verk sem unnin verða yfir sumarmánuðina. Þar má t.a.m. nefna endurnýjun norðurhluta götunnar Kirkjugerðis, þ.e. endurnýjun lagna, yfirborðs og gangstétta. Stapavegurinn fær einnig andlitslyftingu, en kaflinn milli Hafnargötu og Iðndals fær nýtt yfirborð og gatan verður þrengd lítillega. Með því móti verður lagnasvæðið meðfram götunni komið út fyrir vegstæðið, sem munar miklu ef af einhverjum ástæðum þarf að komast í lagnirnar, t.d. vegna bilana. Vatnsveita og fráveita verða lögð inn á tjaldsvæðið, þannig að unnt verði að koma fyrir nýju og rúmgóðu aðstöðuhúsi fyrir gesti svæðisins, auk þess sem rekstraraðili þess hyggst reisa þar nokkur smáhýsi til útleigu fyrir ferðamenn. Síðast en ekki síst er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir við fráveituna, með því að byggja litla dælustöð neðan við Akurgerði og leggja s.k. þrýstilögn þaðan að útrásinni við hafnargarðinn. Þar verður einnig byggð lítil dælistöð með hreinsibúnaði. Loks er ráðgert að leggja göngu- og hjólreiðastíg milli Voga og Brunnastaðahverfis, meðfram Vatnsleysustrandarveginum. Síðast en ekki síst er lagning ljósleiðara í dreifbýlinu á verkefnalista ársins.

Húsnæðismál grunnskólans
Í Stóru-Vogaskóla eru nú liðlega 170 nemendur, í 10 bekkjardeildum. Skólabyggingin var upphaflega tekin í notkun árið 1979, en síðan þá hefur tvívegis verið byggt við hana, síðast árið 2005 þegar álman sem hýsir unglingastigið var tekin í notkun. Við þá framkvæmd var
þá þegar hugað að enn frekari stækkunarmöguleikum til framtíðar, með því að undirbúin voru jarðvegsskipti fyrir annarri slíkri viðbyggingu. Nú er komið að því að huga að húsnæðismálum skólans að nýju, ekki síst nú þegar fjölgun íbúða og íbúa er fyrirsjáanleg. Það er til mikils að vinna fyrir starfsemi skólans og rekstur að nýta sem best þá innviði sem þegar eru til staðar, og fresta þannig í lengstu lög byggingu nýs skóla. Starfshópur um húsnæðismál grunnskólans tekur á næstunni til starfa, þar sem rýnt verður í húsnæðisþarfir skólans til næstu ára. Þar er að mörgu að hyggja, enda skólastarfið í stöðugri þróun og vexti, og þarfirnar síbreytilegar. Einnig verður hugað að þáttum eins og starfsemi félagsmiðstöðvar, lengdrar viðveru, aukinnar áherslu í tónlistarnámi o.fl.

Menningarverðlaunin 2019
Frístunda- og menningarnefnd sveitarfélagsins fundaði í vikunni. Eitt af því sem var til umfjöllunar var hin árlega úthlutun menningarverðlauna sveitarfélagsins. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinni á síðasta ári, í kjölfar þess að sveitarfélagið setti sér menningarstefnu og setti reglur um veitingu verðlaunanna. Á næstunni verður því auglýst eftir tilnefningum til verðlaunanna, og eru bæjarbúar jafnt sem félagasamtök innan sveitarfélagsins hvött til að senda inn tilnefningar. Afhending þeirra mun síðan fara fram við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal á Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl 2019. Daníel Arason menningarfulltrúi veitir nánari upplýsingar, netfang hans er daniel@vogar.is

Að lokum Þorri er senn á enda og Góa handan við hornið. Sólin hækkar jafnt og þétt á lofti og dagarnir lengjast. Ég óska öllum góðrar og gæfuríkar helgar!

 

Ábyrgðarmaður: Ásgeir Eiríksson asgeir@vogar.is 15.2.2019 7.árg.4.tbl.
Innihald þessa pistils endurspeglar á engan hátt skoðanir ritstjóra, og er einungis ætlað að þjóna því hlutverki að miðla fréttum af því sem efst er á baugi hverju sinni á
vettvangi sveitarfélagsins sem og að halda til haga gagnlegum upplýsingum um starfsemina á vettvangi sveitarfélagsins.