Pistill bæjarstjóra.

Af vettvangi bæjarstjórnar
Janúarfundur bæjarstjórnar var s.l. miðvikudag, þar sem fjölmörg mál voru tekin til umfjöllunar. Þar má t.d. nefna skipan stýrihóps um endurskoðun aðalskipulags, en bæjarstjórn samþykkti á nýliðnu ári að tímabært væri að ráðast í það viðamikla verkefni sem endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins er. Stýrihópurinn verður fljótlega kallaður saman, og er ætlað að setja fram tillögu um vinnufyrirkomulag verkefnisins fyrir næsta fund bæjarstjórnar. Þá var jafnframt samþykkt að ráðast í breytingu á stjórnsýslu sveitarfélagsins, sem felst í því að leggja niður Umhverfis- og skipulagsnefnd í núverandi mynd, en setja þess í stað á stofn tvær nýjar nefndir, þ.e. Skipulagsnefnd og Umhverfisnefnd. Samhliða þessari ákvörðun þarf að breyta samþykktum um stjórn sveitarfélagsins, og fór fram fyrri umræða bæjarstjórnar um þær breytingar á fundinum. Á næsta fundi bæjarstjórnar verður síðari umræða um breytta bæjarmálasamþykkt, og í kjölfarið kosið í hinar nýju nefndir og þær taka til starfa. Með þessari ákvörðun hyggst bæjarstjórn skerpa áherslur í þeim mikilvægu málaflokkum sem nefndirnar fjalla um, þ.e. skipulagsmál og umhverfismál.

Ný þjónustumiðstöð
Síðla árs 2018 lauk framkvæmdum við gatnagerð fyrir nýtt íbúðahverfi á miðbæjarsvæðinu. Einn fylgifiskur þeirra framkvæmda var að þjónustumiðstöð sveitarfélagsins (áhaldahúsið), þurfti að víkja. Húsið var því rifið og því fargað. Nú eru hafnar framkvæmdir við nýja þjónustumiðstöð sveitarfélagsins, sem mun rísa á lóðinni sem er næst bæjarskrifstofunum, í Iðndal 4. Um er að ræða myndarlegt stálgrindarhús, sem munn uppfylla þarfir umhverfisdeildar sveitarfélagsins með öllum þeim tólum, tækjum og búnaði sem þeirri starfsemi fylgir. Í hönnuninni
er gert ráð fyrir þvottastæði fyrir almenning, þar sem fólk getur loks þrifið bíla sína hér í sveitarfélaginu. Síðast en ekki síst verður sérrými afmarkað í húsinu, þar sem einn af dælubílum Brunavarna Suðurnesja verður framvegis staðsettur. Það styttir til muna útkallstíma slökkviliðsins.

Liðsmenn vantar í varalið BS
Brunavarnir Suðurnesja (BS) eru með slökkvistöðvar í Reykjanesbæ og Sandgerði, og eins og hér er getið að framan er gert ráð fyrir að staðsetja dælubíl í nýrri þjónustumiðstöð Sveitarfélagsins Voga. Starfssvæði BS er Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar. Slökkviliðsstjóri hefur nú áhuga á að efla varalið BS. Varaliðið er hópur viðbragðsaðila sem kemur slökkviliðinu til aðstoðar þegar um stór og alvarleg útköll er að ræða, eða einhverjar aðrar þær aðstæður verða sem kalla á viðbótarmannskap við fastaliðið. Í ljósi þess að slökkvibíll verður brátt staðsettur í Vogum sækist BS nú eftir liðsauka í Vogum. Hér er um spennandi tækifæri að ræða, einkum fyrir ungt fólk sem vill e.t.v. skapa sér möguleika á framtíðarstarfi á vettvangi brunavarna. Gerð er krafa um gott líkamlegt atgervi, og þurfa umsækjendur því að standast þrekpróf. Varaliðið sækir æfingar reglulega, og fá greidd laun fyrir það. Þá opnar aðild að varaliðinu leið fyrir þá sem t.a.m. hafa áhuga á að starfa við sumarafleysingar í slökkviliðinu og / eða sækja um fastráðningu í slökkviliðinu. Ég bendi öllum áhugasömum á að hafa samband við Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóra, netfang hans er jong@bs.is

Að lokum
Sólin fetar sig markvisst hærra með degi hverju með tilheyrandi aukinni birtu. Ég óska öllum góðrar helgar!
VOGAR - HRAÐFERÐ