Óbreytt ástand sveitarfélagsins varðandi COVID varnir

Aðgerðarstjórn Sveitarfélagsins Voga hélt fund síðdegis mánudaginn 19. október og var gestur fundarins Ingþór Guðmundsson forseti bæjarstjórnar. 

Á fundinum voru ræddar nýjar reglur heilbrigðisráðherra um sóttvarnarráðstafanir sem taka gildi þriðjudaginn 20. október. Aðgerðarstjórn tók þá ákvörðun að gera ekki breytingar á ákvörðunum sveitarfélagsins hvað varðar aðgengi að stofnunum þess og verða því sömu reglur í gildi a.m.k. í eina viku. Það er markmið aðgerðarstjórnar að vernda sérstaklega skólastarfið en einnig starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa þess. Nú eru fjórir einstaklingar með staðfest smit í sveitarfélaginu og eru þeir allir í einangrun og fjórir að auki í sóttkví. Þessar tölur viljum við ekki sjá hækka og óskum þess að allir íbúar fari áfram varlega og gæti ítrustu sóttvarna. 

Ennfremur hvetur aðgerðastjórn alla til að sinna bæði líkamlegu og andlegu heilbrigði sem best. Göngu- og hjólaferðir ásamt almennri heima-líkamsrækt geta flestir stundað og verum einnig dugleg að heyra í fjölskyldu og vinum með aðstoð tækninnar. Sérstaklega eru íbúar beðnir að huga að þeim sem búa einir og hafa hugsanlega einangrast í þessu ástandi, eitt símtal gerir til að mynda oft mikið.