Ný matvöruverslun opnar í Iðndal 2

Sveitarfélagið hefur gert samning við fyrirtækið Grocery Store ehf um leigu á verslunarrými í Iðndal 2 en þar hyggst fyrirtækið hefja rekstur matvöruverslunar.

Í fundarferð bæjarráðs sem fjallaði um málið á fundi sínum í gær kemur fram að bæjarráð fagni því að samningar hafi tekist við rekstraraðila um rekstur matvöruverslunar í Vogum og óskar bæjarráð nýjum rekstraraðilum góðs gengis.

Eigendur Grocery Store ehf hafa yfir 10 ára reynslu af rekstri matvöruverslana og reka fimm matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akranesi. Stefnt er að opnun verslunarinnar í næsta mánuði.  Opnunartími verður frá klukkan 11 til 19 mánudag-laugardags og 11-17 á sunnudögum. 

Ekki er búið að ákveða nafn á hina nýju verslun og ætla rekstraraðilarnir að efna til nafnasamkeppni. Nafnasamkeppnin er öllum opin og íbúar eru hvattir til að taka þátt. Frestur til að skila inn tillögum að nafni er til og með 14. febrúar næstkomandi og skulu þær berast á netfangið mary.weryszko@gmail.com 

Í verðlaun fyrir bestu hugmyndina er 50 þúsund króna gjafabréf í nýju versluninni.