Neysla berja og matjurta í skugga eldgoss

 

Nú þegar haustar hafa margir það fyrir sið að fara í berjamó. Í Stóru-Vogaskóla er verið að nýta þessa frábæru “kennslustofu” sem umhverfi og náttúra Voganna er. Meðal annars er kennt um ýmsar plöntutegundir og hvernig njóta má ávaxta þeirra. Í móanum vaxa krækiber en einnig finnast á völdum stöðum bæði bláber og hrútaber. Nú þegar mengun fá eldgosinu í Geldingadölum hefur legið hér yfir þá vakna spurningar um hversu heilsusamlegt það sé að neyta berja úr móanum í nágrenni Voganna. Haft var samband við Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sem sögðu berin örugg til neyslu, en rétt væri að skola þau eins og annað grænmeti og ávexti. Efni eins og brennisteinsdíoxíð (SO2) sem kemur frá gosinu myndar súlfít þegar það kemst í snertingu við vatn/raka, en súlfít er notað sem aukaefni í mörgum matvælum. Efnin setjast aðallega utaná ber og lauf, en skolast auðveldlega af með rigningu og vatni. Hins vegar eru súlfít þekktir ofnæmisvaldar og geta matjurtir af svæðinu verið varasamar fólki með óþol fyrir súlfítum í matvælum.