Náttúruvá í Sveitarfélaginu Vogum

Náttúruvá í Sveitarfélaginu Vogum

Miðvikudaginn 24. febrúar 2021 hófst jarðskjálftahrina á Reykjanesi, sem enn stendur yfir. Þegar þetta er ritað að morgni miðvikudagsins 3. mars 2021, þ.e. rétt um viku eftir að hrinan hófst, hafa liðlega 10.000 skjálftar verið skráðir hjá Veðurstofu Íslands, sem vaktar svæðið gaumgæfilega. Talsverður fjöldi skjálftanna hafa verið það stórir, að vel hefur fundist fyrir þeim hér í sveitarfélaginu, sem og víðar á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu. Mánudaginn 1. mars s.l. komu fram vísbendingar um að ekki væri einungis hægt að rekja skjálftana til flekahreyfinga eins og í fyrstu var talið, vísbendingar hefðu komið fram um að færsla jarðskorpunnar mætti einnig rekja til kvikusöfnunar neðanjarðar og þar með væri sú raunverulega hætta fyrir hendi að kvikan gæti leitað til yfirborðsins. Enn sem komið er eru þó engar vísbendingar um að slíkt gerist, en hættan er til staðar.

Þegar jarðhræringar hófust í byrjun árs 2020 í grennd við Grindavík ályktaði bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga á fundi sínum í janúar það ár mikilvægi þess að unnin yrði rýmingaráætlun fyrir sveitarfélagið, kæmi til náttúruvár á svæðinu. Nú, rúmu ári síðar, er þessi áætlun ekki enn tilbúin. Fjallað hefur verið ítrekað um málið á vettvangi Almannavarnanefndar Suðurnesja utan Grindavíkur, nú síðast á fundi nefndarinn í gær, þriðjudaginn 2. mars 2021. Vinna við gerð áætlunarinnar er á forræði embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Á fundinum kom fram að áætlunin lægi nú fyrir í drögum, en frekari vinna þyrfti að fara fram til að ljúka við gerð hennar.

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum fyrr í dag, miðvikudaginn 3. mars 2021, að ítreka fyrri bókun bæjarstjórnar, og verður þeirri ítrekun nú komið á framfæri við almannavarnanefnd og embætti lögreglustjóra.

Von okkar er sú að áætlunin líti dagsins ljós fyrr en síðar, og verður hún þá kynnt íbúum sveitarfélagsins með tilheyrandi hætti.

Það er mikilvægt að halda því til haga að litlar líkur eru taldar á að koma þurfi til rýmingar, jafnvel þótt eldgos verði á þeim slóðum sem nú er talið líklegast að gjósi á. Mikilvægt er að fylgjast vel með fréttum og leiðbeiningum almannavarna, komi til eldsumbrota. Af hálfu vísindamanna hefur verið lögð áhersla á að gos á þessu svæði verði sprungugos, með tiltölulega hægu hraunflæði, ef að líkum lætur. Jafnframt hefur komið fram að komi ekki til goss á þessum slóðum sé ekki talið að hraunflæðið ógni byggð.

Loks er þess að geta að nú er unnið að uppsetningu gasmælis í Vogum, í samstarfi við Umhverfisstofnun. Með því móti er vel fylgst með hvort hætta sé á gasmengun, sem getur verið fylgifiskur eldgoss.

Almannavarnir funda daglega meðan á þessu óvissuástandi stendur, hér á heimasíðu sveitarfélagsins munum við miðla nauðsynlegum upplýsingum eftir því sem tilefni er til. Íbúar eru jafnframt hvattir til að fylgjast með vef almannavarna, www.almannavarnir.is., en þar má ætíð sjá nýjustu upplýsingar um framvindu mála, jafnt á íslensku, ensku og pólsku.