Menningarverðlaunin í ár hlutu Jón Haukur Aðalsteinsson og Ungmennafélagið Þróttur. Birgir Örn Ólafsson forseti bæjarstjórnar afhenti verðlaunin en Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd Hauks.
Jón Haukur Aðalsteinsson
Jón Haukur Aðalseinsson fékk verðlaunin í flokki einstaklinga en Haukur ein og sveitungar hans kalla hann, er fæddur á Vatnsleysuströnd 17. júní 1945. Hann er alinn upp á Ströndinni en hefur verið búsettur seinni ár í Reykjavík. Haukur er bátasmiður og vann við þá iðju megnið af starfsæfi sinni. Í frístundum hefur hann verið drjúgur í ýmiskonar grúski varðandi báta og útgerð og teiknaði m.a. upp og smíðaði tvíæring sem var algeng gerð fiskibáta á 18. öld.
Haukur hefur lengi verið áhugamaður um sögu Sveitarfélagsins Voga, áður Vatnsleysustrandarhrepps og þá helst það sem tengist útgerð og sögu sjávarútvegs. Eftir hann liggur fjöldi tímaritsgreina, m.a. um sögu þilskipa á Suðurnesjum. Hann er viljugur að deila þessum sögulega fróðleik með samferðafólki sínu og samfélaginu öllu og hefur af því tilefni komið fram á ýmsum viðburðum á Suðurnesjum og þó víða væri leitað.
Fyrir tveimur árum kom út bókin Út á Brún og önnur mið – Útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930, eftir Hauk. Þar rekur hann sögu bændaútgerðarinnar í Vogum og á Vatnsleysuströnd allt frá elstu fáanlegu heimildum.
Bókin byggir á viðamikilli könnun frumheimilda í fornbréfasafni, Þjóðskjalasafni og fleiri skjalasöfnum sem gefur í mörgum tilfellum nýja sýn á söguna, bæði sögu svæðisins sem og sjósóknar. Hún er fróðleg lesning um lífshætti þeirra sem sóttu sjóinn og byggðu landið fyrr á öldum.
Það er samfélaginu í Vogum mikilvægt og dýrmætt að eiga fólk eins og Hauk að. Einstakling sem hefur brennandi áhuga á sögunni og viljann til að deila fróðleiknum með samferðafólki sínu. Með hans líkum varðveitum við söguna og höldum á lofti einkennum sveitarfélagsins, samferðafólki og komandi kynslóðum til góða.
Ungmennfélagið Þróttur
Ungmennafélagið Þróttur hlaut menningarverðlaun í hópi félagsamtaka fyrir árangur sinn í að tryggja og að halda vel heppnað Landsmót UMFÍ 50+ sem skapaði ógleymanlega upplifun fyrir alla þátttakendur, bæjarbúa og gesti. í Sveitarfélaginu Vogum sumarið 2024.
Ferlið hófst snemma árs 2019 þegar UMFÞ setti fram hugmyndina um að halda Landsmót UMFÍ 50+ í Vogum. Félagið lagði mikið á sig til að tryggja að Landsmótið yrði haldið í. Að lokum leiddi þessi vinna til þess að Vogar urðu fyrir valinu.
Landsmótið fór fram dagana 6. til 9. júní og var boðið upp á keppni í 20 íþróttagreinum ásamt fjölbreyttri afþreyingu, þar á meðal matar- og skemmtikvöld, heimatónleika og matarvagna. Það fór ekki framhjá neinum að Landsmótið setti svip sinn á bæinn og skapaði mikla stemningu.
Mótið var fyrsta sinnar tegundar í Vogum og undirbúningur fyrir mótið gekk vel. Sjálfboðaliðar áttu stóran þátt í undirbúning og framkvæmd mótsins og ánægjulegt var að sjá hversu gott samstarf er á milli félagasamtaka í Sveitarfélaginu.
Óskum við þeim Hauki, stjórn og félagsmönnum í ungmennafélaginu Þrótti innilega til hamingju með menningarverðlaunin.