Menningarverðlaun Voga 2023

Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga voru afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Menningarverðlaunin í ár hlutu Þorvaldur Örn Árnason og Félag eldri borgara í Vogum.

Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri afhenti verðlaunin en í ræðu hans og umsögn um Þorvald Örn Árnason sagði hann meðal annars að með fjölbreyttum verkum, virkri þátttöku í félags- og skólastarfi og afmælisþáttum um skólasögu Voga hefði Þorvaldur haft mikil áhrif á menningu og samfélag sveitarfélagsins. Menningarverðlaunin væru því viðurkenning á framúrskarandi framlagi hans til menningar í Sveitarfélaginu Vogum

Félag eldri borgara í Vogum fagnar 8 ára afmæli í ár. Á þeim árum sem félagið hefur starfað hefur það haldið uppi gríðarlega metnaðarfullu, fjölbreyttu og góðu félagsstarfi. Í umsögn um félagið sem bæjarstjóri fór yfir í tilefni af afhendingu verðlaunanna kom meðal annars fram aukinni þátttöku eldri borgara í allskyns viðburðum, hreyfingu og annarri menningarstarfsemi mætti að miklu leyti þakka því góða starfi sem félagið hefði staðið fyrir á undanförnum árum.

Óskum við þeim Þorvaldi, stjórn og félagsmönnum í Félagi eldri borgara innilega til hamingju með menningarverðlaunin.