Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga 2020

Þann 17. júní síðastliðin voru menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarsalnum. Var þetta í þriðja sinn sem verðlaunin voru veitt og að þessu sinni komi þau í hlut Sesselju Guðlaugar Guðmundsdóttur og Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar.

Sesselja Guðlaug Guðmundsdóttir er fædd í nóvember árið 1947 í Vogum á Vatnsleysuströnd og er hér uppalin. Hún hefur frá unga aldri haft gríðarlegan áhuga á sögu sveitarfélagsins og hefur í gegnum tíðina verið dugleg við það að safna að sér munum, ljósmyndum og myndböndum sem tengjast sveitarfélaginu. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið þegar aðilar taka að sér svoleiðis vinnu að eigin frumkvæði og aðdáunarvert.

Hún hefur átt sinn þátt í mótun menningarlífs hér í sveitarfélaginu. Til dæmis hefur hún verið mjög virk í félagssamtökum, svo sem Minjafélaginu, Ungmennafélaginu Þrótti og svo Skátunum, þegar þeir voru virkir. Hún skrifaði bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Þá aðstoðaði hún föður sinn Guðmund Björgvin Jónsson ötullega við ritun bókarinnar Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Þessar bækur eru báðar aðgengilegar á netinu í gegnum vefsíðuna bæku. Hún hafði forgöngu um það að koma myndasafninu á netið í gegnum minjafélagið ásamt því að hýsa myndbönd sem tengjast safninu í gegnum Youtube síðu sína, og viljum við hvetja alla til að kynna sér það efni, þar má finna gömul myndskeið frá Vogunum og af ströndinni.

 

Minja og Sögufélag Vatnsleysustrandar var formlega stofnað árið 2005, en var þó virkt frá árinu 2003. Markmið félagsins er að varðveita minjar og sögu í Sveitafélaginu Vogar til ánægju og lærdóms fyrir komandi kynslóðir, einnig veitir félagið viðtöku á, og varðveitir gamla muni.

Félagið hefur safnað gömlum ljósmyndum úr sveitarfélaginu og í ágúst 2009 var settur upp opinn vefur til að hýsa myndasafnið og gera sem flestum kleift að njóta þeirra. Elstu myndirnar eru frá því um 1920, en þær eru flestar frá miðbiki 20. Aldar. Minja- og Sögufélagið hefur einnig haft það að frumkvæði að koma sem flestum sögulegum ritum sem skrifuð hafa verið um Voganna á vefinn í samstarfi við Bækur.is, þar sem bækurnar eru opnar öllum.

Það er mikið af minjum sem innihalda gríðarlega mikilvæga og ekki síður skemmtilega sögu Sveitarfélagsins sem liggja bæði hér í bænum sem og á ströndinni og hefur Minjafélagið undanfarin ár unnið hörðum höndum við endurbætur á þessum merkis minjum og allir meðlimir vinna gríðarlega mikilvæga sjálfboðavinnu. Meðal verkefna félagsins má nefna endurbætur á skólahúsinu Norðurkot, endurbætur á hlöðunni og fjósinu Skjaldbreið, endurbætur á samkomuhúsinu Kirkjuhvol og uppgerð á gömlum timburbát sem smíðaður var á ströndinni

Þá hefur félagið verið virkt í ýmsum viðburðum í sveitarfélaginu sem opnir eru öllum endurgjaldslaust. Þeir viðburðir eru til að mynda Safnahelgi Suðurnesja, epladagurinn, Fjölskyldudagar, sögugöngur og margt fleira

 

Sveitarfélagið óskar Sesseluju og Minja- og sögufélaginu til hamingju með verðlaunin og þakkar þeim störfin í gegnum árin. Þetta er þó engan vegin einhver kveðjugjöf heldur vonumst við til að við megum áfram njóta krafta þeirra hér eftir sem hingað til.