Þann 17. júní 2025 við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal voru veitt menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga 2025.
Menningarverðlaunin í ár hlaut Rafn Sigurbjörnsson eða Rafn Sig eins og hann er oftast kallaður - ljósmyndari, myndbandsgerðar- og tónlistarmaður.
Rafn býr hér í Sveitarfélaginu Vogum og hann hefur í áratugi tileinkað sér það að fanga undur íslenskrar náttúru með ljósmyndum og myndböndum, með yfir fjörutíu ára reynslu sem sjálfmenntaður ljósmyndari.
Rafn hefur ferðast vítt og breitt um Ísland og gefið út bækur og efni sem sýna fjölbreytileika og fegurð landsins okkar. Verk hans hafa birst í tímaritum og bókum víða.
En í öllum sínum myndverkum hefur hann ekki gleymt heimabyggðinni. Hann hefur sérstaklega lagt sig fram við að mynda Voga og nágrenni – og með verkum sínum hefur hann ekki aðeins sýnt öðrum hversu fallegt þetta svæði er, heldur líka fangað sögulegar og náttúrulegar breytingar sem eiga sér stað hér með tímanum. Þannig hefur hann ekki bara myndað – heldur skráð og varðveitt.
Rafn á því sannarlega lof skilið fyrir hvernig hann hefur kynnt Sveitarfélagið Voga – og um leið skapað verðmæta heimild um líf, landslag og náttúru þess.
Með vefsíðunni Iceland Photo Gallery, YouTube-rásinni Iceland Video Gallery, ljósmyndabókum sínum og innleggi sínu á samfélagsmiðlum hefur Rafn gefið fjölda fólks tækifæri til að njóta íslenskrar náttúru og landslags.
Við óskum Rafni Sig til hamingju með þökkum fyrir hans ómetanlega framlag.
Guðmann Rúnar Lúðvíksson, formaður Frístunda- og menningarnefndar, Rafn Sigurbjörnsson, ljósmyndari og verðlaunahafi, Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri.