Lokun á heitu vatni á Suðurnesjum vegna viðgerðar á Njarðvíkuræð.
Ráðast þarf í viðgerð á Njarðvíkuræð, stofnlögn HS Orku sem flytur heitt vatn frá Svartsengi að Fitjum í Reykjanesbæ.
Viðgerð hefst síðdegis þriðjudaginn 9. desember og má gera ráð fyrir að verkið taki samtals um 10 klukkustundir.
Á meðan á viðgerð stendur mun ekkert heitt vatn berast frá Svartsengi. Viðskiptavinir HS Veitna á Suðurnesjum verða því án heits vatns í nokkrar klukkustundir.
Þetta á við um íbúa og fyrirtæki í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, við Keflavíkurflugvöll og í Vogum.
Áætlaður tímaás
Gert er ráð fyrir að þrýstingur lækki um kl. 21:00 og að heitt vatn fari að streyma á ný um Njarðvíkuræð um kl. 04:00. Er gert ráð fyrir að þrýstingur fari að byggjast upp um kl. 08:00 og að allir viðskiptavinir verði komnir með heitt vatn aftur um kl. 10:00 að morgni miðvikudags.
HS Veitur biðja íbúa og fyrirtæki á svæðinu að gera ráðstafanir í samræmi við þetta og sýna þolinmæði á meðan vinna stendur yfir
Starfsfólk HS Orku og HS Veitna vinna að framkvæmdinni eins hratt og örugglega og hægt er.
Upplýsingar verða uppfærðar eftir þörfum á hsveitur.is og samfélagsmiðlum HS Veitna eftir því sem framkvæmdinni miðar áfram.
HS Orka og HS Veitur þakka fyrir skilning og þolinmæði.
Tilkynning frá HS Veitum: Lokun á heitu vatni á Suðurnesjum vegna viðgerðar á Njarðvíkuræð - HS Veitur