Listasýning nemenda Stóru-Vogaskóla og Heilsuleikskólans Suðurvalla

Það var líf og fjör hjá starfsfólki bæjarskrifstofu þegar nemendur í Stóru-Vogaskóla og Heilsuleikskólans Suðurvalla mættu galvösk í morgun og settu upp listasýningu. Sýningin er samvinnuverkefni Heilsuleikskólans Suðurvalla og Stóru-Vogaskóla og er innblásin af bátum og skipum.

Elstu börn leikskólans unnu verkefnið í samvinnu með nemendum 6. og 7. bekkjar Stóru-Vogaskóla og hafa þau lagt mikla vinnu í verkefnið. Nemendur unnu bæði skemmtilegt myndverk og bjuggu til pappírsbáta og sjóhatta. Eins voru smíðaðir bátar og þeir málaðir, smíðað á þá rekkverk og seglin saumuð.  

Einnig eru til sýnis fjölnota pokar sem nemendur 6. og 7. bekkjar saumuðu fyrir leikskólann og eru notaðir í staðinn fyrir plastpoka undir blaut og/eða skítug föt leikskólabarnanna. 

Hvetjum við bæjarbúa til að kíkja við og sjá afrakstur þessa flotta verkefnis. Listasýninguna má finna í anddyrinu á Iðndal 2 (húsakynni bæjarskrifstofu) og stendur sýningin til 19. janúar n.k.