Sjálfbær rekstur í stækkandi bæ

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun 2025-2027. Samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jávæð um 90 milljónir króna og veltufé frá rekstri 249 milljónir króna, eða sem nemur 11,3% af áætluðum heildartekjum ársins.

Við undirbúning fjárhagsáætlunar hefur verið lögð höfuðáhersla á að styrkja rekstrargrundvöll sveitarfélagsins með hagræðingu á öllum sviðum og markvissari forgangsröðun útgjalda. Markmiðið er að sveitarfélagið uppfylli skilyrði laga um fjárhagslega sjálfbærni og jafnvægi í rekstri og geti staðið undir fyrirsjánlegri þörf fyrir innviðauppbyggingu samhliða mikilli fjölgun íbúa.

Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri segir vinnu við gerð fjárhagsáætlunar hafa verið krefjandi verkefni sem þó hafi gengið vonum framar og það sé ekki síst að þakka góðri samvinnu innan bæjarstjórnar, skýrri markmiðasetningu og mikilvægu framlagi starfsmanna sveitarfélagsins.

Mikil fjölgun íbúa kallar á innviðauppbyggingu

Það sem af er ári hefur íbúum fjölgað hratt í Sveitarfélaginu Vogum. Í ársbyrjun voru íbúar 1.396 talsins en voru orðnir 1.566 í byrjun desember, sem samsvarar rúmlega 12% fjölgun íbúa á innan við einu ári. Miðað við framvindu byggingarframkvæmda í sveitarfélaginu og framboð nýs íbúarhúsnæðis má gera ráð fyrir að íbúafjölgunin haldi áfram á a.m.k. sama hraða á næsta ári. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að í árslok verði íbúar í sveitarfélaginu orðnir 1.850 talsins eða um 32,5% fleiri en þeir voru í ársbyrjun 2023.

Auknum íbúafjölda fylgja eðlilegar og sjálfsagðar kröfur um aukið framboð þjónustu, s.s. fjölgun leikskólaplássa og aðstöðu fyrir fleiri grunnskólabörn. Á næstu misserum og árum verður því lögð höfuðáhersla á að byggja upp nauðsynlega innviði og viðhalda góðri þjónustu við íbúa.

Nýjar áherslur í dagvistunarmálum

Samhliða gerð fjárhagsáætlunar samþykkti Bæjarstjórn nýjar reglur um niðurgreiðslur dagforeldra, reglur um heimgreiðslur og reglur um leikskólavist. Nýjar áherslur byggja á vinnu stýrihóps fræðslunefndar sem nefndin fól að vinna drög að stefnumótun um dagvistun barna í Vogum. Hlutverk stýrihópsins var að gera tillögu að heildstæðri stefnu í dagvistarmálum í sveitarfélaginu og vinna stefnumótandi áætlun með tillögum um aðgerðir sem snúa að dagvistun barna frá því að fæðingarorlofi lýkur að grunnskólagöngu. Í vinnu hópsins var lögð áhersla á að taka mið af áætlaðri íbúaþróun í sveitarfélaginu á næstu misserum og árum.

Með nýjum reglum hækka niðurgreiðslur gjalda vegna vistunar barna hjá dagforeldrum. Í þeim tilgangi að auka valmöguleika foreldra og barna verður framvegis boðið uppá svokallaðar heimgreiðslur sem taka mið af niðurgreiðslum vegna þjónustu dagforeldra miðað við 8 stunda vistun. Með endurskoðuðum reglum um leikskólavist er mörkuð sú stefna að tryggja öllum börnum sem náð hafa 18 mánaða aldri leikskólapláss þegar leikskólastarf hefst að hausti. Í fjárhagsáætlun er einnig gert ráð fyrir kostnaði við stækkun húsnæðis Heilsuleikskólans Suðurvalla og er undirbúningur að uppsetningu færanlegrar kennslustofu við skólann nú þegar hafinn.

Óbreytt útsvar og álagning fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði

Almennar gjaldskrár munu fylgja verðlagsþróun og er lögð áhersla á að þær séu í eðlilegu samræmi við gjaldtöku annarra sveitarfélaga fyrir sambærilega þjónustu. Álagning fasteignaskatta og gjalda á íbúðarhúsnæði er óbreytt á milli ára en álagningarhlutfall lóðarleigu er fært í sama horf og það var fyrir lækkun þess árið 2021. Breytingar eru gerðar á innheimtu gjalda fyrir sorphirðu og urðun í samræmi við nýjar áherslur og kröfur í lagaumhverfi málaflokksins.

Markviss uppbygging innviða á næstu árum

Samhliða mikilli fjölgun íbúa skapast þörf fyrir innviðauppbyggingu auk annarra brýnna verkefna, s.s. viðhaldi fasteigna. Í áætlun næsta árs er gert ráð fyrir fyrsta áfanga við stækkun Heilsuleikskólans Suðurvalla með uppsetningu færanlegrar kennslustofu. Unnið verður markvisst að viðgerðum á húsnæði Stóru-Vogaskóla á næstu árum, göngu- og hjólastígagerð, hönnun og byggingu viðbyggingar við Stóru-Vogaskóla og viðhald og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Samtals eru fjárfestingar áætlaðar um 158 m.kr. á næsta ári en í heild eru fjárfestingar á áætlunartímabilinu 2024-2027 áætlaðar um 1,6 milljarðar króna.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2024:

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 90,1 milljónir króna eða 4,1% af tekjum.
  • Framlegðarhlutfall A- og B-hluta verði 13% á árinu 2024
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um 62,5 milljónir króna eða 3,4% af tekjum.
  • Skuldir og skuldbindingar A- og B-hluta (skuldahlutfall) verði 92,5% í árslok 2024.
  • Skuldaviðmið samkv. reglugerð 502/2012 verði 72,9% í árslok 2024
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta verði 249 milljónir króna eða 11,3% af heildartekjum.
  • Launahlutfall verði 51,8% á árinu 2024 (53,9% árið 2023).
  • Útsvarsprósenta verði óbreytt, eða 14,74%.
  • Álagningarhlutfall fasteignaskatta verði óbreytt á milli ára.
  • Almennt er miðað við að gjaldskrár fylgi verðlagsþróun, þ.e. að þjónustugjöld haldist óbreytt að raungildi á milli ára (8%).
  • Áætlaðar fjárfestingar nemi 158 milljónum króna á árinu 2024 eða 7,2% af áætluðum heildartekjum.

Fjárhagsáætlun 2024-2027

Greinargerð