Fyrsta helgin í aðventu í Vogunum verður sannkölluð veisla af jólailmi, gleði og samveru fyrir alla aldurshópa. Ljósadýrð, handverk og jólastemmning munu setja skemmtilegan svip á bæinn þegar íbúar og gestir koma saman til að fagna upphafi aðventunnar.
Föstudagurinn 28. nóvember - Kveikt á jólatrénu í Aragerði
Á föstudagsmorgni verður jólatréð í Aragerði tendrað fyrir yngstu kynslóðina. Börn úr leikskólanum munu skreyta tréð með skrauti sem þau hafa föndrað og nemendur úr 1.–4. bekk taka þátt í dansi í kringum jólatréð. Frést hefur að vinsælir jólagestir munu ekki láta sig vanta og ætli að syngja og dansa með börnunum.
Laugardagurinn 29. nóvember - Jólabingó
Á laugardeginum verður svo Jólabingó Lions haldið í Tjarnarsal. Húsið opnar kl. 18:00 og hefst bingóið kl. 19. Hægt verður að kaupa pylsur og drykki á staðnum.
Sunnudagurinn 30. nóvember - Epladagur, kökubasar, messa og jólatrésskemmtun
Á sunnudeginum verður Kvenfélagið Fjóla með sinn árlega kökubasar sem ávallt vekur mikla lukku meðal bæjarbúa. Basarinn verður haldinn í safnaðarheimilinu við Kálfatjarnarkirkju og opnar stundvíslega kl. 13:00. Við hvetjum fólk til þess að mæta snemma því kökurnar rjúka ávallt fljótt út.
Á sunnudeginum mun Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar halda Epladaginn hátíðlegan. Jólamarkaður verður í Skjaldbreið þar sem boðið verður upp á fjölbreytt handverk og jólalega iðju. Gestir geta búið til sín eigin kerti og skreytt epli. Norðurkot verður opið og fagurlega skreytt í jólabúninginn að vanda.
Gestum er boðið upp á jóladrykki og kræsingar, þar á meðal malt og appelsín, ristaðar möndlur, skreytt epli og piparkökur, sannkölluð jólahátíð frá kl. 13:00-17:00.
Fyrir þá sem ekki þekkja til þá stendur Skjaldbreið og Norðurkot við Kálfatjarnarkirkju.
Messa verður í Kálfatjarnarkirkju á sunnudeginum kl 15:00.
Dagurinn endar með jólatrésskemmtun í Aragerði kl 17:00. Þar mun Arnór Bjarki Blomsterberg flytja stutta hugvekju, kirkjukórinn syngja falleg jólalög og rauðklæddur jólagestur mætir og heilsar upp á unga sem aldna.