Jarðhræringar og gosórói – staðan 4. mars 2021

Síðdegis í gær, miðvikudaginn 3. mars 2021, bárust fréttir af svo kölluðum óróapúls á flestum jarðskjálftamælum, einkum í grennd við Keili og Litla Hrút. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar mælast slík merki í aðdraganda eldgosa. Nú, rúmum hálfum sólarhring síðar, hefur talsvert dregið úr skjálftavirkninni. Þegar þetta er ritað á 11. tímanum að morgni fimmtudagsins 4. mars hafa liðlega 80 skjálftar mælst frá miðnætti, flestir síðustu nótt. Tveir skjálftar mældust á 9. tímanum, en eftir það hefur allt verið með kyrrum kjörum. Síðustu tveir skjálftarnir eiga upptök sín í Fagradalsfjalli, þannig að engin skjálftavirkni hefur verið í og við Keili undanfarnar klukkustundir.

Færustu vísindamenn þjóðarinnar standa vaktina og fylgjast með þróun mála, auk þess sem þeir eru duglegir að miðla til okkar upplýsingum þar að lútandi.

Nokkuð hefur verið rætt um þá staðreynd að rýmingaráætlun fyrir sveitarfélagið er ekki tilbúin. Bæjarstjórnin hefur þrýst á um að gerð hennar verði lokið sem fyrst, og hefur bæjarstjóri fylgt því máli eftir við lögreglustjóra og almannavarnir. Nú er fullyrt að áætlunin verði tilbúin á allra næstu dögum, en hún liggur nú þegar fyrir í drögum. Það er mikilvægt að halda því til haga að allir viðbragðsaðilar, jafnt lögregla, brunavarnir, sjúkraflutningar, almannavarnir, björgunarsveitir, heilbrigðisstofnun o.s.frv. eru allir upplýstir um þá verkferla sem í gildi eru komi til dæmis til rýmingar, eða annarra ráðstafana sem grípa þarf til ef hætta steðjar að. Íbúar sveitarfélagsins þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að ekki sé til áætlun til að vinna eftir – einungis er eftir að gera hana sýnilega og aðgengilega fyrir almenning.

Það skal enn og aftur ítrekað að samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir, er engin aðsteðjandi hætta yfirvofandi. Almannavarnir haf ítrekað mikilvægi þess að ekkert sé því til fyrirstöðu að lífið gangi áfram sinn vanagang, jafnvel þótt eldgos brjótist út. Það sem mestu máli skiptir er að fylgjast vel með fréttum af þróun mála, og ef til kemur, fylgja leiðbeiningum yfirvalda.

Búið er að setja upp gasmæli við íþróttamiðstöðina, þar er hægt að fylgjast með í rauntíma á slóðinni: https://xn--loftgi-tua4f.is/?zoomLevel=9&lat=64.019626641719&lng=-21.991246481586902

Að lokum viljum við benda á vef Almannavarna www.almannavarnir.is og vef Rauða krossins www.redcross.is, sem og samfélagsmiðla þeirra. Margt áhugavert og gagnlegt er þarna að finna, m.a. þennan fróðleik um sálræn einkenni við náttúruvá: https://www.raudikrossinn.is/um-okkur/frettir/salraen-einkenni-vid-natturuva Hjálparsími rauða kossins er öllum opinn allan sólarhringinn, nýtum okkur þá aðstoð ef okkur líður illa eða ef okkur vantar einhvern til að tala við. Símanúmerið er 1717