Það er okkur í Sveitarfélaginu Vogum sannur heiður að fylgjast með ungu íbúunum okkar vaxa og dafna og þegar þeir ná glæsilegum árangri á landsvísu er það ástæða til að fagna. Valdimar Kristinn Árnason, sem valinn var íþróttamaður ársins 2024 í Vogum, átti einstaklega gott tímabil í rallýcrossi og landaði bæði Íslandsmeistaratitlinum og bikarmeistaratitlinum í sínum flokki, annað árið í röð.
Í fyrra varð Valdimar Kristinn íslandsmeistari og bikarmeistari í unglingaflokki sem er fjölmennasti flokkurinn í rallýcrossi. Valdimar varð 17 ára í september 2024 og keppti því í ár í 1000cc flokki þar sem hann mætti harðri samkeppni reyndra ökumanna. Þrátt fyrir ungan aldur lét hann það ekki stoppa sig og sýndi að hann á erindi meðal þeirra bestu. Valdimar sýndi svo sannarlega að með aga, eldmóð og góðum stuðningi er allt mögulegt.
Sveitarfélagið Vogar óskar Valdimari Kristini innilega til hamingju með einstakan árangur og sendir honum bestu óskir um áframhaldandi velgengni – framtíðin er björt og við fylgjumst stolt með!
