Hilmar Egill Sveinbjörnsson ráðinn skólastjóri Stóru-Vogaskóla

Starf skólastjóra Stóru-Vogaskóla var auglýst laust til umsóknar fyrr í vetur. Leitað var til ráðningarþjónustu Hagvangs, sem sá um ráðningarferlið í samráði við mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins. Alls bárust þrjár umsóknir um starf skólastjóra, umsækjendur um starfið voru eftirtaldir:

 

Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir, umsjónarkennari í Vopnafjarðarskóla

Hilmar Egill Sveinbjörnsson, aðstoðarskólastjóri Stóru-Vogaskóla

Vera Ósk Steinsen, tónlistarkennari í Grunnskóla Hólmavíkur.

 

Rætt var við alla umsækjendur sem sóttu um starfið. Að loknum viðtölum og yfirferð gagna (umsókna, kynningarbréfa, ferilskráa) var Hilmar Egill Sveinbjörnsson metinn hæfastur umsækjenda til að gegna starfinu. Niðurstaðan var kynnt á 349. fundi bæjarráðs sem haldinn var miðvikudaginn 16. febrúar s.l. Bæjarráð lagði samhljóða til við bæjarstjórn að leggja til að Hilmar Egill yrði ráðinn sem skólastjóri. Bæjarstjórn kom saman til 189. fundar þann 24. febrúar s.l., þar sem tillagan var samþykkt með sex atkvæðum, en einn bæjarfulltrúi sat hjá.

 

Um leið og sveitarfélagið þakkar umsækjendum fyrir umsóknir þeirra og þann áhuga sem þeir sýndu starfinu, óskum við Hilmari Agli til hamingju með ráðninguna og bjóðum hann velkominn til starfa. Hilmar Egill á að baka langan og farsælan starfsferil í Stóru-Vogaskóla, nú síðast sem aðstoðarskólastjóri.