Heilsuleikskólinn Suðurvellir - skýrsla um ytra mat

Nýlega var kynnt skýrsla um ytra mat á heilsuleikskólanum Suðurvöllum. Matið fór fram nú í haust og er framkvæmt af Menntamálastofnun fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. 

Í skýrslunni eru fimm þættir metnir, sem eru: stjórnun, uppeldis- og menntastarf, leikskólabragur, foreldrasamstarf og innra mat. Undir hverjum matsflokki eru svo tveir til sex matsþættir, samtals 21 matsþættir. Hverjum matsþætti er gefin einkunn á bilinu einn til fjórir og fær hver þáttur lit eftir því hversu góð niðurstaðan er. Dökkgrænn litur er á bestu einkunn og ljósgrænn á þeirri næstbestu, þá gulur og loks rauður. Skilgreiningin á grænu litunum er "flestir eða allir þættir sterkir, mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf", og "fleiri styrkleikar en veikleikar, gott verklag, flestir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi."

Niðurstaða skýrslunnar er sú að Heilsuleikskólinn Suðurvellir fær 19 þætti með dökkgrænum lit og 2 þætti með ljósgrænum. Enginn þáttur fær gula eða rauða einkunn. 

Á dögunum var skýrslan kynnt fyrir starfsfólki leikskólans, fræðslunefnd og bæjarstjórn og kom þá fram að þessi niðurstaða væri einkar glæsileg og reyndar fordæmalaus. Nánast heyrir til undantekninga að enginn matsþáttur fái gula eða rauða einkunn. 

Þetta er að sönnu glæsilegur árangur hjá leikskólanum okkar og góður vitnisburður um það starf sem þar er unnið. Til hamingju!