Guðrún Lovísa Magnúsdóttir heiðursborgari Sveitarfélagsins Voga (18.12.1922 - 24.02.2021)

Guðrún Lovísa Magnúsdóttir heiðursborgari Sveitarfélagsins Voga er látin, 99 ára að aldri. Útför hennar fer fram frá Kálfatjarnarkirkju í dag föstudaginn 5. mars . 

Guðrún Lovísa (eða Lúlla, eins og hún var ávallt kölluð), fæddist þann 18. desember 1922, og var því á 99. aldursári er hún lést. Lúlla var kjörin heiðursborgari Sveitarfélagsins Voga á fundi bæjarstjórnar þann 29. maí 2017, en tilnefningin var tilkynnt á þjóðhátíðardaginn, þann 17. júní 2017, við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal.

Lúlla fæddist á Halldórsstöðum í Vatnsleysustrandarhreppi. Foreldrar hennar voru Erlendsína Helgadóttir frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi og Magnús Jónsson, fæddur í Gufunesi (sem þá tilheyrði Mosfellssveit). Hún átti 8 alsystkini og einn hálfbróður.

Guðrún Lovísa ólst upp frá 4 ára aldri hjá foreldrum sínum á Sjónarhóli, skammt frá Halldórsstöðum. Hún gekk hálftíma gang í Brunnastaðaskóla frá 9 ára aldri fram undir fermingu. Þá réðist hún í vist í Hafnarfirði og lærði þar m.a. saumaskap sem átti eftir að koma sér vel.

Eiginmaður Guðrúnar Lovísu var Guðmundur Björgvin Jónsson frá Brekku í Vogum, fæddur 1. október 1913. Þau opinberuðu trúlofun sína á sumardaginn fyrsta 1939, hún 16 ára og hann 24. Þau giftu sig snemma vors 1941 er hún var orðin 18 ára og hann 27.

Þau hófu búskap í einu herbergi í Garðhúsum í Vogum og þar fæddist fyrsta barnið í ágúst það ár. Alls urðu börnin 12 og komust öll á legg. Í dag eru afkomendurnir orðnir um 140 talsins.

Þrátt fyrir börnin hafði Guðrún Lovísa einatt tíma fyrir aðra. Oft var fleira í heimili og heimilið félagsheimili fyrir börnin í Vogum, þar sem um tíma var danskennsla og síðar skátastarf og vaskahúsið biðskýli fyrir skólabílinn.

Lúlla hirti vel um garðinn sinn og að auki tíndi hún rusl í nágrenninu og fékk viðurkenningu fyrir þá umhyggju og snyrtimennsku af umhverfisnefnd sveitarfélagsins.

Sú hefð skapaðist að á hverjum laugardegi fjölmenntu afkomendur hennar í heimsókn og var oft margt um manninn og glatt á hjalla.

Auk þess að vinna fyrir stórri fjölskyldu og byggja yfir hana þrívegis lét Guðmundur Björgvin, maður Guðrúnar Lovísu, til sín taka í samfélaginu og eftir hann liggur einstök bók, Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarheppi. Guðmundur Björgvin átti við veikindi að stríða síðustu árin sem hann lifði og annaðist Guðrún Lovísa hann lengstum heima með aðstoð barnanna, en helmingur þeirra búsettu sig í Vogunum.

Guðrún Lovísa hefur skrifað endurminningar sem til eru í handriti og eru ómetanleg heimild um líf fólksins í Vogum og á Vatnsleysuströnd.

Sveitarfélagið Vogar kveður heiðursborgara sinn og minnist hennar með þökk og virðingu. Aðstandendum öllum er vottuð samúð við fráfall Guðrúnar Lovísu Magnúsdóttur.

 

Frétt af vef sveitarfélagsins frá 20. júní 2017

Viðtal Þorvaldar Arnar Árnasonar við Lúllu frá 20. nóvember 2014