Gæðasamband Ljósleiðarans í Vogum

Íbúar í Vogum geta tengst gæðasambandi Ljósleiðarans eftir að framkvæmdum við lagningu ljósleiðara lýkur í ágúst. Framkvæmdir hafa staðið yfir í sumar en alls eru 170 hús tengd í þessum fyrsta áfanga verkefnisins sem unnið er í samstarfi við Mílu en ráðgert er að allir íbúar sveitarfélagsins geti tengst fyrir árslok.

Með tilkomu Ljósleiðarans á svæðið fá íbúar bæjarins hraðari nettengingu og geta streymt efni í háum gæðum í mikinn fjölda tækja á sama tíma. Þær tækniframfarir sem nú eru að eiga sér staða byggja á hröðum flutningi gagna en aukinn hraði og snerpa í nettengingu mun meðal annars bæta gæði sjónvarpsáhorfs, streymi kvikmynda, fjarfunda og netleikja fyrir notendur.

Flest fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um Ljósleiðarann og stendur íbúum til boða val á milli fjölmargra þjónustuleiða Nova, Vodafone, Símans, Hringdu, Kapalvæðingar og Hringiðunnar. Íbúum er bent á að hafa samband við sitt þjónustufyrirtæki til þess að panta tengingu við Ljósleiðarann en ráðgert er að fyrstu íbúarnir geti tengst strax í byrjun september.

“Fólk er sífellt að gera frekari kröfur þegar kemur að hraða og þar kemur gæðasamband Ljósleiðarans sterkt inn. Metnaður okkar hjá Ljósleiðaranum liggur meðal annars í því að fólk allsstaðar á landinu hafi tækifæri á sama hraða og því er það mikið fagnaðarefni að ná að tengja fyrstu húsin í Vogunum” segir Dagný Jóhannesdóttir framkvæmdastýra Ljósleiðarans.