Fulltrúar Voga í Farsældarráði Suðurnesja

Á 36 ára afmælisdegi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember var veglegt málþing um stöðu barna á Suðurnesjum haldið í Stapanum Hljómahöll.

Barnasáttmálinn var lögfestur var á Íslandi árið 2013 og árið 2020 var undirritaður samstarfsamningur milli Sveitarfélagsins Voga og UNICEF um verkefnið Barnvænt sveitarfélag.

Leik- og grunnskóli hafa sannarlega unnið vel að málefnum barna með þennan góða samning til hliðsjónar og nú stendur til að efla það starf enn frekar með nýjum lögum um farsæld barna.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum voru fyrst til að stofna farsældarráð sem fundaði í fyrsta sinn fyrir þingið og á mynd má sjá fulltrúa Voganna í því ráði.

Auk þess er Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs í framkvæmdarhópi Farsældarráðs Suðurnesja sem hóf starfsemi í haust og kom að undirbúningi þingsins. Þingið heppnaðist afar vel og margt áhugavert sem þar kom fram. Helst ber að nefna það forskot og sá styrkur sem við höfum í hefð samstarfs hér á Suðurnesjum og hve rík við erum af fagfólki og hefðum fyrir fjölbreyttu og skapandi starfi.

Við höfum allt til að fara af krafti í enn betra og öflugra starf börnunum okkar til góða. Börnin eru nefnilega það dýrmætasta í hverju samfélagi og afskaplega mikilvægt að við öll gerum okkar besta til að tryggja vellíðan, öryggi og menntun þeirra allra.

 

Á myndinni eru f.v. Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Jökull Þór Kjartansson, fulltrúi UNGVOG, Jóhanna Lovísa Jóhannsdóttir og Eðvarð Atli Bjarnason en þau eru fulltrúar Voga í Farsældarráði Suðurnesja.