Flugeldasýning á "Fjölskyldudögum"

EIns og komið hefur fram hér hefur því miður þurft að taka þá ákvörðun að fresta Fjölskyldudögum í ár. 

Við ætlum samt sem áður að bjóða upp á flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Skyggnir sér um eins og vanalega og verður hún á laugardaginn kl. 23.00. Sýningin verður á sama stað og í fyrra á bryggjusvæðinu við Hafnargötu. Björgunarsveitin sér um að afmarka hættusvæði og mikilvægt er að allir virði það og fari varlega. 

Við hvetjum íbúa til að gera sér glaðan dag á laugardaginn það er margt hægt að gera í sveitarfélaginu. Ef veður verður gott er hægt að njóta útiveru og ganga, hjóla, hlaupa - til dæmis prófa nýja göngu- og hjólreiðastíginn okkar. Sundlaugin og þreksalurinn verða opin og svo er meistaraflokkur karla í knattspyrnu að keppa og getur með sigri, og jafnvel með jafntefli, tryggt sér sigur í 2. deild í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögu félagsins og það er boðið upp á ýmislegt hjá þeim eins og kemur fram í frétt hér á heimasíðunni. 

 

Við viljum minna íbúa á að gæta allra sóttvernarreglna á meðan á flugeldasýningu stendur, virða það að eins meters fjarlægðarregla er enn í gildi og forðast hópamyndanir. Það er það sem við erum að reyna að passa upp á líka en þeim sem standa að Fjölskyldudögum, félagasamtökum og sveitarfélaginu, finnst samt sem áður mikilvægt að bjóða upp á hana sem táknrænan atburð og minna okkur öll á að þessu ástandi fer nú vonandi að ljúka og við getum vonandi haldið svakalega hátíð að ári.