Fjárhagsáætlun 2022 - 2025 samþykkt

Bæjarstjórn kom saman til 188. fundar miðvikudaginn 15. desember 2021. Á dagskrá fundarins var m.a. síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022, sem og þriggja ára áætlun áranna 2023 - 2025.

Eftir tvö erfið ár í rekstri sveitarfélagsins, m.a. vegna áhrifa af ytri þáttum (kórónaveirufaraldursins) má nú greina hægan viðsnúning í rétta átt. Fyrr á þessu ári var ráðist í viðamikla úttekt á rekstri og fjárhag sveitarfélagsins, og í kjölfarið gripið til ýmissa hagræðinga- og sparnaðaraðgerða. Þessar aðgerðir eru nú teknar að skila sér, sem hefur áhrif í þeirri áætlun næstu ára sem nú hefur verið samþykkt. Þrátt fyrir þetta verður afkoma sveitarfélagsins enn neikvæð næstu tvö árin, og því ekki gert ráð fyrir að rekstrarlegu jafnvægi verði náð fyrr en árið 2024. 

Fjármunamyndun rekstursins er einnig á réttri leið. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði jákvætt þegar árið 2022, og muni haldast þannig út áætlunartímabilið.

Þrátt fyrir þrönga stöðu sem fylgir hallarekstri verður áfram veitt fé til nýframkvæmda. Þar ber hæst framkvæmdir við fráveitu sveitarfélagsins, í tengslum við stækkun byggðarinnar og fjölgunar íbúa. Fjárfestingar ársins 2022 verða rúmar 300 milljónir króna, og helst fjárfestingastigið svipað út áætlunartímabilið.

Áfram þarf að ráðast í lántökur til að fjármagna nýframkvæmdir, en reksturinn og fjármunamyndum hans mun hægt og bítandi taka að standa undir afborgunum lána eftir því sem líður á áætlunartímabilið. Þrátt fyrir auknar lántökur er ekki gert ráð fyrir að skuldaviðmið og skuldahlutfall fari yfir viðmiðunarmörk sveitarstjórnarlaganna.