Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2026 eru nú aðgengilegir á www.island.is. Álagning fasteignagjalda er reiknuð út frá fasteignamati húss og lóðar. Á seðlunum koma fram fjárhæðir fasteignaskatts, lóðarleigu, vatnsgjalds og fráveitugjalds auk sorphirðugjalda.
Fyrir íbúa skiptir vitaskuld mestu máli hver heildarálagning er. Í þessu samhengi er vísað til eftirfarandi umfjöllunar í greinargerð með fjárhagsáætlun, þar sem dæmi voru sýnd um breytingar á heildarálögum.


Breyting álagningar á íbúðarhúsnæði á milli ára og fjölgun gjalddaga
Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði eru 0,28% og lækka úr 0,42%. Vatnsgjald er 0,11% en var 0,08%. Fráveitugjald er 0,12% en var 0,085%. Lóðarleigugjöld eru 1,15% og breytast ekki á milli ára. Þá haldast sorpgjöld óbreytt á milli ára.
Gjalddögum fasteignagjalda fjölgar úr tíu í ellefu, sá fyrsti er þann 1. febrúar 2026 og sá síðasti 1. desember 2026. Eindagi fasteignagjalda er fyrsta virka dag næsta mánaðar eftir gjalddaga.
Afsláttur af fasteignaskatti
Rétt til lækkunar og niðurfellingar fasteignaskatts eiga ellilífeyrisþegar (67 ára og eldri) og örorkulífeyrisþegar sem úrskurðaðir eru með 75% örorku eða meira. Veittur er afsláttur í fjórum þrepum eftir tekjum viðkomandi. Skilyrði til lækkunar er að umsækjandi sé þinglýstur eigandi að eigninni, búi í viðkomandi eign, eigi þar lögheimili, og að um sé að ræða íbúðarhúsnæði. Ekki er heimilt að veita lækkun ef íbúð viðkomandi er leigð öðrum. Eingöngu er veittur afsláttur af gjöldum af einni íbúð í eigu aðila.

Lækkun fasteignaskatts er reiknuð sjálfkrafa í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Ríkisskattstjóra
Í upphafi árs 2026 er afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega til bráðabirgða miðaður við tekjur ársins 2024. Afslátturinn er endurreiknaður þegar skattframtal 2026 vegna tekna 2025 er staðfest hjá Skattinum. Leiði endurskoðunin til breytinga á afslætti þá skilar breytingin í þær greiðslur sem eftir eru á árinu. Ekki þarf að sækja sérstaklega um afsláttinn.
Veittur er 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignaskatti, séu gjöldin að fullu greidd eigi síðar en 19. febrúar 2026. Þeir sem óska eftir að staðgreiða gjöldin er bent á að hafa samband við bæjarskrifstofu í síma 440-6200 eða senda tölvupóst á skrifstofa@vogar.is.