Þemavika Almannavarna 28. apríl – 5. maí

Þemavika Almannavarna 28. apríl – 5. maí

Í næstu viku verður haldin ráðstefna Almannavarna „Við erum öll almannavarnir“, í framhaldi fer af stað Þemavika Almannavarna sem fjallar um eigin viðbúnað hvers og eins og vitund íbúa um hvers vegna við erum öll almannavarnir. Okkur hjá Almannavörnum langar að fá ykkur í sveitafélögum landsins með okkur í lið til hvetja íbúa ykkar að kynna sér eigin viðbúnað og það efni sem þið bjóðið upp á, sem tengist almannavörnum.

Er þinn eigin viðbúnaður klár?

Ísland er land jarðskjálfta, eldgosa, snjóflóða, óveðra og ýmissa annara náttúruváa. Á Íslandi falla einnig aurskriður og síðasta ári var í fyrsta sinn sett á almannavarnarstig vegna hættu á gróðureldum. Ísland er land þar íbúar þess þurfa alltaf að vera klárir og bregðast við þegar náttúran minnir á sig. Viðbrögð og afleiðingar eru mismunandi eftir landshlutum en öll þurfum við að vita hvernig bregðast skal við.

 

Hvað áttu og hvað þarftu?
Mörg muna vel eftir að í símaskránni voru ekki bara símanúmer landsmanna heldur einnig upplýsingar frá Almannavörnum um það sem nauðsynlegt væri að eiga ef ýmis konar vá gerði vart við sig. Og ekki síst hvernig ætti að bregðast við. Þessar upplýsingar eru í dag inni á ýmsum heimasíðum, og það á meðal heimasíðu Almannavarna.

 

Að vera sinn eigin viðbragðsaðili

Þegar Veðurstofa Íslands sendir út veðurviðvaranir og minnir okkur á að festa trampólínið bregst fólk við. Flest notum við reykskynjara sem varar okkur við reyk og eldi, annað finnst okkur óhugsandi. Við þekkjum öll að rauðklædda Landsbjargarfólkið sem fer út og bjargar fólki og hlutum á meðan við hin erum beðin um að halda okkur heima. Þetta eru dæmigerð viðbrögð sem við kunnum. En við verðum að halda kunnáttunni við og Almannavarnir langar að fá ykkur í lið með okkur við að gera það.

 

Fyrsta viðbragð getur stundum falist í undirbúningi heima fyrir, áður er váin ber að dyrum og það er það sem okkur langar að leggja áherslu á í þemaviku Almannavarna.

 

Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í almannvörnum og mikilvægt er að þau séu virk í að leiðbeina íbúum um að vera vel undirbúin og kynna sér viðbrögð og viðbúnað við þeim vám sem geta verið í næsta nágrenni við heimili og vinnustað. Tökum nú höndum saman í þemavikunni til að efla forvarnir í almannavörnum, miðla fræðslu og fjalla um mikilvægi þess að vera vel undirbúin. Efni sem gagnast sveitarfélögunum má finna á heimasíðu Almannavarna undir flipanum Forvarnir og fræðsla, gott er að minna á hvar fjöldahjálparstöðvar eru staðsettar í sveitarfélaginu og mikilvægi þess að gera heimilisáætlun og kenna leik- og grunnskólabörnum hvað þau eigi að gera þegar upp koma hættuaðstæður.

 

Á Íslandi eru 70 sveitafélög 12 ráðuneyti, 175 stofnanir og fjöldi fyrirtækja rekur mikilvæga innviði á ýmsum sviðum. Allir þessir aðilar bera ábyrgð á að greina áhættu og áfallaþol á sínum stað. Í þeirri vinnu koma leiðbeiningar Almannavarna sér vel, en þær leiðbeiningar er hægt að finna inn á vef Almannavarna. Greining sveitarfélagsins á áhættu og áfallaþoli auðveldar íbúum sveitarfélagsins að forgangsraða því hvaða áföll þeirra heimili og vinnustaður þurfa að vera undirbúin fyrir.

 

Almannavarnir hafa útbúið vefgátt þar sem haldið er utan um samræmda greiningu í hverju sveitafélagi fyrir sig. Þar er einnig mælaborð með yfirliti yfir niðurstöður sem hægt er að fylgjast með. Þarna geta t.d. íbúar hvers sveitafélags fyrir sig séð hver staðan er í sínu sveitafélagi. Í könnun okkar á stöðu almannavarnastarfs í sveitarfélögunum er m.a. spurt um hvaða starfsemi sveitarfélagið hafi sinnt í tengslum við eigin viðbúnað á síðasta ári og voru um 60% sem birt höfðu fréttir og greinar því tengt á heimasíðu sveitarfélagsins. Þegar á reynir er ómetanlegt að íbúar hafi verið vel upplýstir um forvarnir og hvernig hægt er að vera vel undirbúin undir áföll.

 

Við vonum að þið getið sem flest tekið þátt í þessu með okkur og þannig aukið vitund íbúa í ykkar samfélagi um mikilvægi þess að við séum öll almannavarnir.

 

F.h. Almannavarna

 

Hjördís Guðmundsdóttir
Samskiptastjóri
Almannavarnir

hg01@logreglan.is
8917090

 

 

 

Ríkislögreglustjóri
Skúlagötu 21
101 Reykjavík

rls@rls.is
4442500

 

 

 

 

 

Um ábyrgð á tölvupósti