Eldri borgarar á faraldsfæti

Þetta herbergi er félagsaðstaða eldri borgara á Álftanesi og hér mega sáttir sitja þröngt
Þetta herbergi er félagsaðstaða eldri borgara á Álftanesi og hér mega sáttir sitja þröngt

Eldri borgarar úr Vogum heimsóttu kollega sína á Álftanesi 9. apríl og áttu með þeim góðan dag.

Það er orðin hefð að eldri borgarar úr Vogum og af Álftanesi heimsæki hverja aðra tvisvar á ári. Að þessu sinni brugðu Vogabúar undir sig betri fætinum og heimsóttu vini sína á Álftanesinu. Eftir stutt stopp í leikskólanum þeirra á Álftanesi (þar sem Reynir gerði börnin orðlaus með því að tilkynna að hann væri kominn til að vera á leikskólanum) var haldið í Ríkisútvarpið. Þar fengum við höfðinglegar móttökur frá Sigrúnu Hermannsdóttur hægri hönd útvarpsstjóra. Það vildi einnig svo skemmtilega til að við hittum á útvarpsstjóra sjálfan sem sagði nokkur orð við hópinn. Þar á eftir var hópurinn leiddur um alla ganga í húsinu og fengum við m.a. að sjá safnakost stofnunarinnar, leikmunageymslur, sminkaðstöðuna og fleira. Einnig fræddi Björn Björnsson fyrrum meðlimur Savanna tríósins okkur um söguna en Björn hefur tekið saman skemmtilega sýningu úr sögu RÚV. Að lokum var haldið í veitingastaðinn Hlið sem er yst úti á Álftanesi og býður í góðu veðri upp á hið fegursta útsýni yfir Vatnsleysuströndina. Þar var snædd súpa, sungið og sagðir brandarar. Frábær dagur í alla staði og hafi gestgjafar okkar kærar þakkir fyrir.