Dagskrá Vinnuskólans sumarið 2024

Í ár verður haldið áfram með þá stefnu sem mótuð var síðasta sumar í vinnuskólanum þ.e að lagt sé aukið vægi á fræðslu og munum við jafnfram taka aftur þátt í Grænafána verkefni Landverndar. En líkt og flestum er kunnugt um þá hlaut vinnuskólinn í Vogum Grænfánan í lok síðasta sumars og varð þar með einn af fimm vinnuskólum á landinu sem geta stoltir flaggað Grænfánanum.

Dagskrá Vinnuskólans liggur nú fyrir og er hún sneisafull af skemmtilegum uppákomum.

Sökum anna vegna Landsmóts 50+ sem haldið verður í sveitarfélaginu í júní þá höfum við boðið flokkstjórum að hefja vinnu fyrr en ella og munu þeir byrja að tínast inn frá mánudeginum 13. maí. Munu flokkstjórarnir vinna samhliða starfsfólki þjónustumiðstöðvar við fegrun bæjarins þar til formleg vinna hefst í vinnuskólanum. Formleg vinna í vinnuskólanum hefst á því að flokkstjórar vinnuskólans fari á námskeið hjá Vinnuftirlitinu um vinnuvernd og sitji námskeið í fyrstu hjálp í lok maí.

Eins og áður hefur komið fram þá ætlar Vinnuskólinn að taka aftur þátt í verkefni Landverndar "Vinnuskólar á grænni grein". Í tilefni af því mun Sigurlaug Arnardóttir frá Landvernd koma til okkar þann 10. júní og spjalla við okkur um verkefnið ásamt því að vera með almenna umhverfisfræðslu.

Þann 18. júní koma aðilar frá Rauða krossinum og halda skyndihjálparnámskeið fyrir alla þátttakendur Vinnuskólans, þar verður m.a. farið yfir endurlífgun ásamt öðrum atriðum í fyrstu hjálp sem öllum er hollt að kunna.

Það er mikilvægt fyrir unga fólkið okkar sem er að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífinu að þekkja sín réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum og af því tilefni mun Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, koma til okkar og fræða okkur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Þar er um auðugan garð að gresja en áhersla verður á að læra lesa launaseðla, fræðast um stéttarfélög og lífeyrissjóði og fræða þátttakendur um hvar þau geti leitað sér upplýsinga um réttindi sín og skyldur.

Þann 4. júlí munum við svo hafa hressa uppskeruhátíð þar sem Kristján Hafþórsson frá jákastinu mun koma og verða með skemmtilegan fyrirlestur í anda jákastsins og verður deginum slaufað með grilluðum pulsum.

Af þessu má sjá að það er spennandi sumar framundan hjá okkur í Vinnuskólanum!

Umsóknir fyrir Vinnuskólann skilast á rafrænu formi í gegnum íbúagátt Sveitarfélagins og umsóknarfrestur er til og með 12. maí.