Breytingar á starfsemi íþróttamiðstöðvar

Í ljósi hertra reglna varðandi sóttvarnir hefur verið ákveðið að gera ákveðnar breytingar á starfsemi íþróttamiðstöðvarinnar í Sveitarfélaginu Vogum og verður henni lokað (sundlaug og íþróttamiðstöð) fyrir almenning, meðal annars vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðis og í ljósi þess að búast má við aukinni ásókn í sundlaugina og íþróttamiðstöðina vegna lokunar á höfuðborgarsvæðinu. Stóru-Vogaskóli og Heilsuleikskólinn Suðurvellir, auk skipulagðs íþróttastarfs á vegum UMFÞ fyrir börn fædd 2005 og síðar, eru undanþegin þessum takmörkunum. Meistaraflokkur Þróttar í knattspyrnu hefur áfram aðgang að búningsklefa sínum með því að nýta einungis bakinngang í búningsklefann. Framangreindar ráðstafanir gilda að óbreyttu til og með 19. október en verða endurskoðaðar ef tilefni er til.

Sveitarfélagið vill þrátt fyrir þetta ítreka hvatningu til íbúa um að sinna hreyfingu og líkamsrækt eins og kostur er og sjaldan verið eins rík ástæða til þess eins og einmitt núna. Í sveitarfélaginu er urmull falegra gönguleiða og hægt er að stunda alls konar holla líkamsrækt heima eða utandyra með eigin þyngd eða bara því sem hendi er næst.