Vegagerðin á og rekur landsbyggðarvagna en Strætó sér um upplýsingagjöf og þjónustu fyrir farþega
Núverandi leiðakerfi landsbyggðavagna er 13 ára gamalt og hefur ekki verið uppfært í takti við uppbyggingu þéttbýliskjarna síðustu ára, sem og þær breytingar sem hafa orðið á íbúa- og byggðamynstri.
Nýja leiðakerfið sem tekur gildi um áramótin byggir á núverandi kerfi. Markmiðið með breytingunum er að þróa heildarmynd leiðakerfisins á landsbyggðinni, að þjónusta við vinnu- og skólasóknarsvæða verði sem best og að þjónusta á milli landshluta sé samræmd.
Hlutverk landsbyggðarvagna er að framfylgja stefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum. Meðal atriða í þeirri stefnu er að tengja saman ferðamáta á láði, lofti og legi. Einnig að landsbyggðarvagnar sinni akstri milli byggðarlaga.
Ein af áherslunum í endurhönnun leiðakerfisins er að tengja landsbyggðarvagna við innanbæjarkerfi þar sem þau eru til staðar. Það er hluti af því að styrkja tengingar vinnu- og skólasóknarsvæði þvert á sveitarfélög.
Helstu breytingar á Suðurnesjum:
Akstursleiðir 87 og 89 fá aukið vægi í að sinna atvinnu- og skólasókn innan Suðurnesja. Leið 89 mun aka í völdum ferðum að Keflavíkurflugvelli, en fyrsta ferð á virkum dögum verður kl. 05:12 frá Garði og verður vagninn við Keflavíkurflugvöll kl. 05:30. Þá munu leiðir 89 og 87 aka að Fjölbrautaskóla Suðurnesja í öllum ferðum sem farnar eru til og frá Miðstöð Reykjanesbæ.
Skerpt er á hlutverki leiðar 55 sem tenging milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins, og er tímataflan samþætt við innanbæjarkerfi Reykjanesbæjar í Miðstöð. Sömuleiðis er góð tenging við höfuðborgarvagna í Firði Hafnarfirði, Ásgarði Garðabæ og á Miklubraut Reykjavík, en ferðatíðni höfuðborgarvagna er alla jafna á 10 mínútna fresti á annatíma.
Íbúar eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um breytt leiðakerfi 2026 hér á heimasíðu Strætó bs.
Leið 87 - Vogar - Reykjanesbraut - Vogar (miðstöð við Tjarnargötu 26)

